Skip to main content
22. maí 2019

Hundruð mætt á alþjóðlega ráðstefnu í kynja- og jafnréttisfræðum

Alþjóðleg ráðstefna norræna samstarfsnetsins NORA í kynja- og jafnréttisfræðum verður haldin dagana 22.–24. maí 2019 við Háskóla Íslands. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Border Regimes, Territorial Discourses and Feminist Politics“ og er haldin á vegum RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum í samstarfi við Alþjóðlegan Jafnréttisskóla (UNU-GEST) og ransóknasetrið EDDU við Háskóla Íslands.

Fleiri hundruð gestir sækja ráðstefnuna en á henni verða fluttir tæplega 250 fyrirlestrar og fimm lykilfyrirlestrar um álitamál sem varða m.a. landamæri og jafnréttismál á tímum vaxandi þjóðernishyggju, afnýlendustefnu, femínískt andóf, popúlisma, hinsegin fræði, frumbyggjafræði og fólksflutninga.

Ráðstefnan var sett í morgun í Háskólabíói með ávörpum frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Irmu Erlingsdóttur, formanni stjórnar NORA og forstöðumanni RIKK, EDDU rannsóknaseturs og Alþjóðlega jafnréttisskólans. Þá stigu Reykjavíkurdætur á svið og fluttu tvö lög. 
 

Á NORA-ráðstefnunni verða fluttir tæplega 250 fyrirlestrar og fimm lykilfyrirlestrar um álitamál sem varða m.a. landamæri og jafnréttismál á tímum vaxandi þjóðernishyggju, afnýlendustefnu, femínískt andóf, popúlisma, hinsegin fræði, frumbyggjafræði og fólksflutninga

Á ráðstefnunni verða fimm málstofur sem eru opnar öllum á meðan húsrúm leyfir. Opnu málstofurnar fara allar fram í fyrirlestrasalnum í Veröld – húsi Vigdísar, Lögbergi og Odda.

Miðvikudaginn 22. maí á milli klukkan 15:15 og 17:15  er málstofan Far-Right Projects  í stofu 101 í Odda.

Fimmtudaginn 23. maí á milli klukkan 11:00 og 12:30  er málstofan The Politics of White Nationalism í stofu 101 í Odda. Þá verða grasrótarsamtökin No Borders með hliðarviðburð í tengslum við ráðstefnuna í stofu 101 í Lögbergi kl. 11-12 þar sem landamærastefna íslenskra stjórnvalda og afleiðingar hennar verða til umræðu.

Föstudaginn 24. maí eru tvær opnar málstofur,  Gender and Nationalism og Creativity, Resistance, and Change in Times of Crises: Who is the Subject Speaking? Verða málstofurnar báðar haldnar í Veröld – húsi Vigdísar á milli klukkan 13:15 og 15:15

Dagskrá og nánari upplýsingar um alla viðburði má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.

Frá NORA-ráðstefnunni