Hundrað ár frá fyrstu doktorsvörninni í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
25. október 2019

Hundrað ár frá fyrstu doktorsvörninni í Háskóla Íslands

Hundrað ár eru í dag frá því að fyrsta doktorsvörnin fór fram við Háskóla Íslands en alls hafa nærri 800 manns lokið doktorsprófi frá skólanum frá upphafi, langflestir á síðasta áratug eða svo.

Það var Páll Eggert Ólason sem fyrstur varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 25. október 1919 en hún var á sviði sagnfræði og bar titilinn Jón Arason biskup. Doktorsritgerðin varð jafnframt fyrsti hluti fjögurra binda verks sem nefndist Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. Páll átti eftir að verða prófessor í sögu við Háskólann og gegndi enn fremur starfi rektors Háskóla Íslands 1923-1924.

Fyrstu áratugina brautskráðust eingöngu karlar með doktorspróf frá Háskólanum en fyrst kvenna til þess að verja doktorsritgerð við skólann var Selma Jónsdóttir listfræðingur árið 1960. Doktorsverkefni hennar fjallaði um býzanska dómsdagsmynd í Flatatungu. Nærri fjórir áratugir liðu þar til önnur kona lauk þessari æðstu lærdómsgráðu við HÍ en það var árið 1997. Þá voru allir fjórir nýútskrifaðir doktorar skólans konur, þær Dagný Kristjánsdóttir (bókmenntafræði), Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir (faraldsfræði), Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir (heilbrigðisvísindi) og Hafrún Friðriksdóttir (lyfjafræði).

Segja má að á 20. öldinni hafi fjöldi brautskráðra doktorsnema frá skólanum vaxið hægt en örugglega á hverjum áratug en samhliða eflingu Háskóla Íslands sem öflugs alþjóðlegs rannsóknarháskóla á 21. öldinni hefur doktorsnám tekið stakkaskiptum og stunda nú um 600 manns slíkt nám við öll fimm fræðasvið skólans. 

Doktorsnám tekið stakkaskiptum

Segja má að á 20. öldinni hafi fjöldi brautskráðra doktorsnema frá skólanum vaxið hægt en örugglega á hverjum áratug en samhliða eflingu Háskóla Íslands sem öflugs alþjóðlegs rannsóknarháskóla á 21. öldinni hefur doktorsnám tekið stakkaskiptum og stunda nú um 600 manns slíkt nám við öll fimm fræðasvið skólans. 

Þá hefur fjöldi doktorsnema sem brautskráist árlega margfaldast á þessari öld. Árið 2001 voru fjórir nýir doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands en síðustu ár hafa þeir verið á bilinu 60-70 árlega. Þá stefnir í að metfjöldi brautskráist í ár, eða 90 doktorar. Hlutfall kvenna og fólks með erlent ríkisfang í hópi brautskráðra doktora hefur sömuleiðis aukist mjög á þessari öld og hafa konur verið um tveir þriðju nýrra doktora undanfarin ár. 

Frá því að Páll Eggert Ólason varði sína ritgerð árið 1919 og fram til dagsins í dag hafa samtals 797 doktorar brautskráðst frá Háskóla Íslands, þar af um 540 frá aldarafmælisári skólans, 2011. Nýjasti doktorinn frá Háskóla Íslands er hin bandaríska Deirdre Elizabeth Clark. Hún varði ritgerð sína, sem snertir hið heimsþekkta CarbFix-rannsóknarverkefni og snýst um bindingu koltvíoxíðs í berg, í Hátíðasal Háskólans þann 23. október. Doktorsvörn Deirdre staðfestir þær miklu breytingar sem orðið hafa á eðli doktorsnáms innan skólans og doktorsnemahópnum á þeim hundrað árum sem liðin eru frá vörn Páls Eggerts Ólasonar.

Hægt er að forvitnast um doktorsvarnir við Háskóla Íslands frá upphafi á vef skólans.

 

Páll Eggert Ólason og Deirdre Elizabeth Clark