Skip to main content
6. september 2018

Hugvit úr HÍ nýtt við bráðameðferð við flogaveiki

Innöndunarlyf sem nýtist við bráðameðferð við flogaveiki, sem á uppruna sinn í rannsóknum við Háskóla Íslands, hefur verið tekið til flýtimeðferðar hjá Bandaríska lyfjaeftirlitinu (United States Food and Drug Administration, FDA). Lyfið sem kallast Nayzilam er nefúði og er ætlað við bráðameðhöndlun við svokölluðum bráðaflogum eða raðflogum. Þess má geta að það eru rösklega 30 ár liðin frá því fyrstu rannsóknahóparnir fóru að reyna að lina krampa með nefúða en það er nú loksins að takast fyrir tilstuðlan íslensks hugvits. 

Uppruna flogaveikilyfsins í formi nefúða má rekja til rannsókna og þróunar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands undir stjórn Sveinbjarnar Gizurarsonar prófessors.  Starf Sveinbjarnar hefur nú skilað þeim árangri að lyfjagjöf í formi nefúða lofar afar góðu en niðurstöður úr svokölluðum klínískum fasa hafa skilað eftirsóknarverðum árangri. Tilraunalyfið er skjótvirkt og afar auðvelt í notkun miðað við þau meðferðarúrræði sem nú eru í boði.

Gaman að sjá þetta takast
„Það er ótrúlega gaman að sjá að þetta hafi tekist eftir yfir 30 ára rannsóknarvinnu,“ segir Sveinbjörn en hann bætir því við að erfitt hafi reynst að bíða eftir niðurstöðum úr lokaprófunum á fólki en þær tóku um 5 ár.  „Það er einnig vissulega gaman að vera fyrstur með svona lyf á markað þegar svo margir hafa reynt að þróa bráðalyf eins og þetta, þar á meðal lyfjarisarnir.“

Nýja lyfið byggist á grunnrannsóknum sem reyna oft mjög á þolinmæði vísindamanna og samfélagsins. Eins og heitið ber með sér eru grunnrannsóknir grunnurinn að því sem á eftir kemur, þær skapa nýja þekkingu og á þeirri þekkingu vaxa ný verkefni og nýjar lausnir. 

„Grunnrannsóknir skipta öllu máli fyrir nýsköpun,“ segir Sveinbjörn, „án þeirra koma engar nýjungar á markað, engin ný lyf, engar lyfjameðferðir og fleira í þeim dúr.“

Hugverkaréttur á lyfinu Nayzilam var varinn með einkaleyfi snemma í rannsóknaferlinu sem hefur leitt til þess að bandarísku lyfjaþróunarfyrirtækin Proximagen og UCB hafa lagt út í verulega kostnaðarsamar en nauðsynlegar klínískar tilraunir með lyfið. Nayzilam er fyrsta nefúðalyfið sem byggir á þessu einkaleyfi og bíður nú samþykkis FDA og leyfis til að verða sett á markað á árinu 2019. Lyfinu er ætlað að lina þjáningar milljóna manna um heim allan á næstu árum. 

UCB hefur nú náð samningi við Proximagen um kaup á öllum réttindum þess síðarnefnda á lyfinu og er kaupverðið allt að 370 milljónir bandaríkjadala eða nærri 40 milljarðar íslenskra króna.
 

Sveinbjörn Gizurarson