Skip to main content
7. mars 2018

Hugvísindaþing 2018 - frá synd til siðbótar og allt þar á milli

Vont fólk og ljótt, Reykjavík 1918, ættjarðarljóð, femínískar byltingar, samband Íslands og Grænlands, Vesturheimur, lýðræði, þýðingar, umhverfi, hinsegin rannsóknir, siðbót 21. aldar, syndin, sambýli íslensku og ensku eru meðal þess sem fjallað verður um á  Hugvísindaþingi sem sett verður í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands á föstudag.

Við það tilefni flytur Marina Warner, heiðursgestur þingsins, hátíðarfyrirlestur sem fjallar um notkun nútímahöfunda á goðsögum og furðusögum. Fyrirlesturinn, sem fluttur verður á ensku, nefnir hún Hugsað með sögum. Notkun ímyndunarafls á erfiðum tímum.

Marina Warner er rithöfundur og prófessor í ensku og ritlist sem hlotið hefur fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal DBE-orðu breska samveldisins, norsku Holberg verðlaunin og World Fantasy Lifetime verðlaunin.

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar þar sem fram er borið það helsta í fræðunum í málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Á þinginu í ár verða fluttir um 160 fyrirlestrar í 38 málstofum.

Vefsvæði Hugvísindaþings.

Kápa Hugvísindaþings