Skip to main content
22. febrúar 2021

Hugrún veitir háskólanemum bjargráð

Hugrún veitir háskólanemum bjargráð - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Okkar helsta verkefni í Hugrúnu er að standa fyrir fræðslu í öllum framhaldsskólum landsins en við höfum reynt að nýta samfélagsmiðlana okkar til að ná til breiðari hópa,“ segir Karen Geirsdóttir, formaður Hugrúnar – geðfræðslufélags háskólanema. Félagið stendur núna í vikunni fyrir bjargráðaviku á samfélagsmiðlum þar sem áherslan er á leiðir til að bæta andlega heilsu háskólanema.

„Fyrr í vetur stóð Stúdentaráð Háskóla Íslands fyrir könnun meðal nemenda Háskóla Íslands um andlega líðan á tímum COVID-19. Niðurstöður hennar sýndu að nemendur hafa upplifað aukinn kvíða og vanlíðan á þessu skólaári. Í samstarfi með SHÍ ákváðum við því að vera með svokallaða bjargráðaviku þar sem við finnum bjargráð og deilum í von um að hjálpa þeim sem þurfa,“ segir Karen.

Bjargráðavikan hefst í dag, mánudaginn 22. febrúar, og stendur til föstudagsins 26.febrúar næstkomandi. „Átakið mun fara fram á samfélagsmiðlum okkar og felur í sér að við bæði deilum þeim bjargráðum sem við höfum fundið auk þess sem við leitum til almennings um bjargráð sem hafa reynst fólki vel,“ segir Karen enn fremur.

Andleg heilsa á alltaf að vera í forgangi

Aðspurð segir hún hugmyndina að vikunni hafa kviknað í lok haustmisseris. Það er jafnan mikill álagstími fyrir stúdenta enda bæði próf og verkefnaskil í algleymingi. „Okkur langaði að gera þetta á tíma sem myndi vekja meiri athygli en í t.d. prófatörn. Við vildum ná til sem flestra og því ákváðum við að hafa vikuna á þessum tíma. Andleg heilsa á alltaf að vera í forgangi og við vonum að einhver geti nýtt sér þessi bjargráð og að þessi vika hjálpi einhverjum,“ bætir Karen við.

Óhætt er að segja að kórónuveirufaraldurinn hafi reynt á allt samfélagið og þar eru stúdentar engin undantekning. Kennslustundir og vinafundir í byggingum skólans hafa vikið fyrir vefkennslu og aukinni einveru og Karen segir mikilvægt fyrir fólk að huga að andlegri heilsu sinni þegar svona stendur á. „Við viljum sjá hvort fólk sé almennt meðvitað um sína andlegu heilsu og hvort það nýti sér einhvers konar bjargráð til að bæta hana og hver þessi bjargráð eru. Í rauninni viljum við bara efla þessa hugsun að það sé ýmislegt hægt að gera. Fólk er mjög mismunandi og ólík bjargráð henta ólíkum manneskjum þannig vonandi mun einhver finna nýtt bjargráð til að bæta í verkfærakistuna sína í vikunni,“ segir hún.

Afar virk í fræðslu á vef og samfélagsmiðlum

Hugrún fagnar fimm ára afmæli í ár. Félagið var stofnað af nemendum í læknisfræði, hjúkrunarfræði og sálfræði við Háskóla Íslands með áherslu á að fræða framhaldsskólanema um geðheilbrigði, sem fyrr segir. Á síðustu árum hafa nemendur úr öðrum háskólum slegist í hópinn og starf félagsins verið víkkað út, ekki síst með aðgengilegri fræðslu á vefnum og samfélagsmiðlum. „Sem dæmi þá birtum við gjarnan fallegar myndir með fræðandi textum á Instagraminu okkar og svo leggjum við mikið upp úr vefsíðunni okkar þar sem má finna vandaða texta ritaða af fagaðilum um ýmsar geðraskanir, leiðbeiningar fyrir foreldra/kennara/aðra og ýmis úrræði. Við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að efla samfélagsmiðlana okkar enn frekar og því fannst okkur þetta samstarf með SHÍ kjörið tækifæri að vonandi ná til stærri hóps,“ segir Karen enn fremur um bjargráðavikuna.

Áhugasöm eru hvött til að fylgjast með Hugrúnu á samfélagsmiðlum en fulltrúar hennar munu sjá líka um Instagram Háskóla Íslands mánudaginn 22. febrúar. „Við vonum bara að sem flestir sjái þetta, taki þátt í að deila sínum bjargráðum og að þetta muni mögulega opna enn frekar umræðuna um andlega líðan, þá sérstaklega á tímum COVID-19. Þannig að endilega fylgið okkur á Instagram til að vera með,“ segir Karen að endingu.

Karen Geirsdóttir