Hugrún í herferð fyrir geðheilbrigði | Háskóli Íslands Skip to main content

Hugrún í herferð fyrir geðheilbrigði

12. mars 2018

Nemendur við Háskóla Íslands í geðfræðslufélaginu Hugrúnu hófu á dögunum herferð undir undir myllumerkinu #Huguð þar sem markmiðið er m.a. að vekja athygli geðheilbrigði og úrræðum tengdum geðsjúkdómum. 

Hugrún - geðfræðslufélag var stofnað vorið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands en markmið þess er að fræða ungt fólk um geðheilbrigði og geðsjúkdóma og efla umræðu um geðheilbrigði og útrýma fordómum. Frá stofnun félagsins hafa fjölmargir aðilar úr ýmsum greinum háskólans bæst í hópinn og komið að starfinu og hefur félagið m.a. verið ötult í fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og hjá foreldra- og nemendafélögum. 

Félagið  opnaði á dögunum nýja vefsíðu, gedfraedsla.is, þar sem finna má bæði fræðsluefni um geðheilbrigði og viðeigandi úrræði. „Heimasíðan er sett fram með það að markmiði að vera skýr og aðgengileg fyrir ungt fólk,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Hugrúnar.

Samhliða opnun heimasíðunnar fór af stað herferðin #Huguð en í henni fékk Hugrún hóp fólks til að deila reynslu sinni af ólíkum geðsjúkdómum og geðröskunum. „Herferðinni er ætlað að vekja athygli á geðheilbrigði, fjölbreytileika geðsjúkdóma og þeim úrræðum sem sem standa til boða,“ segir Elísabet enn fremur.

Auk Elísabetar sitja þau Ágúst Ingi Guðnason, fulltrúi læknanema, Hafrós Lind Ásdísardóttir, fulltrúi hjúkrunarnema,  Sólveig Anna Daníelsdóttir, fulltrúi nemenda í klínískri sálfræði, Jóhanna Andrésdóttir, fræðslustjóri, Sonja Sigríður Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri, Kristín Hulda Gísladóttir, fulltrúi grunnnema í sálfræði, og Kristín Fjóla Reynisdóttir meðstjórnandi í stjórn félagsins.

Nánari upplýsingar um Hugrúnu og herferðina #Huguð má finn á vefsíðu og á Facebook-síðu félagsins.

 

Skjáskot af heimasíðu Hugrúnar

Netspjall