Skip to main content
8. október 2018

Horft í umhverfisbreytingar við Heklu

Þverfaglegur hópur vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands hefur undanfarin ár þróað aðferðir til þess að fylgjast með sjálfvirkum hætti með breytingum í náttúru Íslands með eina virkustu eldstöð landsins, Heklu, í brennidepli. Hópurinn stóð að ráðstefnu í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, föstudaginn 5. október þar sem afrakstur verkefnisins var kynntur. Ráðstefnan bar heitið ,,Hekla, Öræfajökull and  Remote Sensing Conference“.

Verkefnið sem um ræðir nefnist „Environmental Mapping and Monitoring of Iceland by Remote Sensing (EMMIRS)“ og hlaut öndvegisstyrk að upphæð tæplega 150 milljónir króna frá Rannsóknasjóði Íslands árið 2015. Fjöldi nemenda og starfsmenn frá Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, Jarðvísindastofnun, Jarðvísindadeild og Líf- og umhverfisdeild Háskólanshefur komið að verkefninu auk erlendra og innlendra samstarfsaðila en sérhæfing þátttakenda liggur m.a. á sviði fjarkönnunar, stafrænnar myndgreiningar, lærdómsvéla, landfræði, jarðfræði og umhverfis- og auðlindafræði.

Kveikjan að verkefninu eru þær öru og miklu breytingar sem geta orðið á landslagi hér á landi og má ýmist rekja til náttúrulegra ferla, eins og eldgosa, jarðskjálfta eða bráðnunar jökla eða verka mannsins. Til þess að geta greint þessar breytingar og brugðist við þeim er nauðsynlegt að geta nýtt fljótvirkar og áreiðanlegar greiningaraðferðir til kortlagningar og eftirlits. 

„Meginmarkmið verkefnisins hefur verið að þróa og nýta sjálfvirkar eftirlitsaðferðir til að fylgjast með jarðfræði- og vistkerfislegum breytingum í íslenskri náttúru og sampili þessara tveggja þátta. Til þess nýtum við svokallaðar fjarkönnunarmyndir sem teknar eru úr flugvélum eða gervitunglum á ýmsum tíðnisviðum og vinnum úr þeim ýmiss konar upplýsingar sem snerta yfirborð landsins,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ábyrgðarmaður verkefnisins og aðalumsækjandi öndvegisumsóknarinnar. Tæknibylting á sviði fjarkönnunar geri vísindamönnunum kleift að afla gríðarmikilla gagna á stóru svæði yfir langan tíma og markmiðið með verkefninu sé að koma Íslandi í fremstu röð í þessum efnum með því að tengja saman þróaða upplýsingavinnslu og kortlagningu á íslensku umhverfi.

Hópurinn lagði sérstaka áherslu að fylgjast með Heklu og nágrenni í verkefninu enda er eitt af virkustu eldfjöllum landsins á sögulegum tíma. „Þar hafa orðið bæði sprengigos og hraungos. Það hefur haft mikil áhrif á mótun landslags í nálægð við fjallið og breytt gróðurfari og búsetu á svæðinu í gegnum aldirnar,“ segir segir Gro Birkefeldt Møller Pedersen, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans og lykilstarfsmaður í EMMIRS. Þá sýni nýlegar rannsóknir að fleiri þættir hafi áhrif umhverfið við fjallið, svo sem illviðri, landnotkun, beiting búfjár, útbreiðsla ágengra plantna eins og lúpínu og loftslagsbreytingar. Það þurfi því að taka tillit til margra þátt þegar umhverfisbreytingar séu metnar.

Ein mikilvæg afurð verkefnisins er safn fjarkönnunargagna frá Heklu og tilheyrandi kvörðunarmælingar sem safnað hefur verið í verkefninu. Gögnin verða birt í opnum aðgangi og eru væntingar rannsóknahópsins að gögnin verði stöðluð lykilgögn sem notuð verði til samanburðar á úrvinnsluaðferðum. Þannig geti vísindamenn hérlendis og erlendis haldið greiningunni áfram og þróað aðferðir til að bæta hana. Vísindagreinar í ritrýndum tímaritum hafa nú þegar verið birtar úr verkefninu og fleiri bíða birtingar. Niðurstöður hafa einnig verið kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum. 

Fjarkönnun er þverfræðilegt viðfangsefni og er styrkur Háskóla Íslands í greininni mikill eins og fram kom í nýrri mælingu frá Global Ranking of Academic Subjects þar sem fjarkönnun við Háskóla Íslands er í sjöunda sæti á heimsvísu. Jón Atli segir mikilvægt að halda áfram að efla samlegð verkfræði, jarðvísinda, landfræði og fleiri greina innan Háskóla Íslands með tilliti til fjarkönnunar. Í tengslum við verkefnið var stofnuð fjarkönnunarmiðstöð innan Háskóla Íslands og eru væntingar til að hún muni eflast á næstu árum. „Ísland er strjálbýlt land og auðlindir okkar eru að mestu í óbyggðum. Fjarkönnun er tækni sem gefur okkur tækifæri til að fylgjast með stórum svæðum í óbyggðum á einfaldan hátt. Umhverfiseftirlit í óbyggðum skiptir okkur miklu m.a.með tilliti til kortlagningar, greiningar og öryggis,“ segir Jón Atli að endingu.

Nánari upplýsingar um verkefnið og ráðstefnuna má nálgast á heimasíðu verkefnisins. 

Af heimasíðu EMMIRS