Skip to main content
21. júní 2019

Hlutu veglega styrki úr Jafnréttissjóði Íslands

""

Tveir fræðimenn og doktorsnemar þeirra við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa hlotið styrki til rannsókna úr Jafnréttissjóði Íslands. Styrkjunum var úthlutað við hátíðlega athöfn í Hörpu 19. júní síðastliðinn, á sjálfan kvenréttindadaginn.

Cynthia Trililani doktorsnemi hlaut sex milljóna króna styrk til rannsóknar sem snýr að háskólanámi innflytjendamæðra. Leiðbeinandi Cynthiu er Annadis Gréta Rúdólfsdóttir dósent við Deild menntunar og margbreytileika. Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir fékk einnig sex milljóna króna styrk til verkefnisins „Upplifun karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum“ en hún hefur brátt doktorsnám við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi Rannveigar er Jón Ingvar Kjaran dósent við Deild menntunar og margbreytileika.

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður fyrir fjórum árum í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Sjóðurinn hefur það meginmarkmið að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

Fram kemur á vef forsætisráðuneytisins að 76 umsóknir um styrki hafi borist sjóðnum að þessu sinni en úthlutað var tæplega 91 milljón króna í styrki til 17 verkefna og rannsókna. 

Lista yfir styrkþega úr Jafnréttissjóði Íslands 2019 má nálgast á vef Rannís.

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, Cynthia Trililani, Jón Ingvar Kjaran og Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir.