Skip to main content
31. maí 2018

Hlutu styrk til að skoða heilsufar og færni aldraðra sem búa sjálfstætt

Inga Valgerður Kristinsdóttur, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild, og leiðbeinandi hennar, Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, hlutu nýverið styrk frá Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala fyrir rannsókn á heilsufari og færni eldra fólks sem býr sjálfstætt en nýtur þjónustu heimahjúkrunar. Styrkurinn eru veittur til doktorsnáms í öldrunarfræðum í tengslum við Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í öldrunarfræðum (RHLÖ).

Markmið rannsóknarinnar er að skilgreina breytingar hjá eldra fólki, sem býr sjálfstætt en nýtur þjónustu heimahjúkrunar, yfir tólf ára tímabil, hverjir eru forspárþættir um vanlíðan aðstandenda í umönnunarhlutverki og hverjir eru forspárþættir um flutning á hjúkrunarheimili. Niðurstöðurnar geta nýst öðrum fræðasviðum og varpað betra ljósi á þarfir og möguleg úrræði fyrir bæði þjónustuþega og aðstandendur þeirra. 

Í umsögn matsnefndar kemur fram að rannsóknin falli vel að markmiðum styrkveitanda, rannsóknarspurning sé markviss og hagnýt, rannsóknin vísindalega vel úr garði gerð og markmið raunhæf. Verkefnið geti svarað áhugaverðum spurningum og stuðlað að myndun nýrrar þekkingar sem nýtist stórum hópi eldri einstaklinga. 

Þetta er tólfti styrkurinn sem Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala afhendir en styrkirnir eru til þriggja ára og einskorðaðir við doktorsnema á öldrunarfræðasviði þar sem verkefni sé unnið í húsakynnum RHLÖ. Við mat á umsóknum eru fengnir utanaðkomandi sérfræðingar. Í ár voru í dómnefnd Guðný Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna Hjartaverndar, Steinunn Hrólfsdóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild, og Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir.

Styrktarsjóður Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala hefur að markmiði að stuðla að þverfaglegum öldrunarrannsóknum við RHLÖ. Auglýstur verður einn doktorsnemastyrkur fyrir janúar 2019. Doktorsnemar eða leiðbeinendur sem eru í rannsóknum sem tengjast öldrun geta sótt um styrkina.  Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir hjá Landspítala og prófessor við Læknadeild, er formaður stjórnar Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala. Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild, er verkefnastjóri RHLÖ. 

Kristín Björnsdóttir, prófesor við Hjúkrunarfræðideild, og Inga Valgerður Kristinsdóttur, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild, hlutu styrk frá Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala.