Skip to main content
29. október 2017

Hlutu Gulleggið fyrir umhverfisvæna áburðarframleiðslu

Fyrirtækið Atmonia, sem byggist m.a. á rannsóknum Egils Skúlasonar, prófessors í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og samstarfsfélaga varð hlutskarpast í  Gullegginu 2017, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Úrslit samkeppninnar voru kunngjörð laugardaginn 28. október. Verkefnið sem hlaut önnur verðlaun byggist enn fremur á hugmynd sem varð til hjá nemendum innan Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Háskólans og þá hlaut nýr hugbúnaður til íslenskukennslu, sem byggist á hugmynd tveggja nemenda við Háskóla Íslands, verðlaun fólksins í samkeppninni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti Gulleggið við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi að undangenginni harðri samkeppni. Þetta er í annað sinn sem samkeppnin er haldin á þessu ári og bárust yfir 200 hugmyndir í keppnina í haust. Þátttakendur sóttu bæði námskeið og fengu þjálfun í mótun viðskiptahugmynda og á endanum voru tíu hugmyndir valdar til þátttöku í úrslitum Gulleggsins.  Aðstandendur þeirra tóku þátt í vinnusmiðjum og kynningarkvöldi um síðustu helgi og í gær svo komið að kynningum fyrir dómnefnd. Að þeim loknum var tilkynnt um verðlaunahafa í samkeppninni.

Fyrstu verðlaun og Gulleggið hlaut fyrirtækið Atmonia sem þróar byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala. Hún byggist á því að nýta vatn og rafmagn til framleiðslu á áburði á vökvaformi sem hentar til dreifingar með úðakerfi. Þetta mun gera bændum kleift að framleiða sinn eigin köfnunarefnisáburð og minnka kolefnisspor sitt í leiðinni. Hugmyndin byggist á rannsóknum Egils Skúlasonar, prófessors í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil unnið að því með erlendum samstarfsfélögum að finna einfaldari leið til áburðarframleiðslu en þá sem nú er notuð en það ferli útheimtir háan hita og mikinn þrýsting. Að Atmonia koma auk Egils þau Helga Dögg Flosadóttir, verkefnisstjóri við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og doktor í efnafræði frá Háskóla Íslands, og Arnar Sveinbjörnsson sem lauk meistaraprófi verkfræðileg eðlisfræði frá Háskóla Íslands í vor. Sigurvegararnir hlutu að launum eina milljón króna frá Landsbankanum og aðgang í verkefnið Aðallínu frá Íslandsstofu.

Í öðru sæti varð fyrirtækið Genki Instruments sem hlaut 500 þúsund krónur frá Landsbankanum og 10 klst. einkaleyfaráðgjöf frá Marel. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Gullegginu er fyrsta vara fyrirtækisins Wave, hringur sem gerir tónlistarfólki kleift að hafa áhrif á tónlistarsköpun og flutning í rauntíma með hreyfingum handarinnar. Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og leyfir þannig tónlistarfólki að stjórna hljóði, effektum eða senda skipanir á náttúrulegan og einfaldan hátt. Að Genki Instruments standa þeir Ólafur Bjarki Bogason, Haraldur Hugosson, Daníel Grétarsson og Jón Helgi Hólmgeirsson, en þess má geta að hugmyndin kviknaði í námi þeirra Ólafs Bjarka og Daníels við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. 

Í þriðja sæti varð fyrirtækið Taktikal sem þróar hugbúnaðarlausn sem gerir einstaklingum og lögaðilum mögulegt að stofna til viðskipta á örfáum mínútum og í kjölfarið heimila ýmsar sjálfvirkar þjónustur er krefjast viðskiptasambands. Þá hlaut hugmyndin Munndropinn, en það er munnstykki sem kemur í veg fyrir að fólk gnísti tönnum, aukaverðlaun KPMG og í netkosningu á vegum fjarskiptafyrirtækisins Nova varð fyrirtækið Ylhýra hlutskapast. Það þróar tölvuforrit og app í snjallsíma sem hefur það að markmiði að kenna íslensku í gegnum samtalsform. Ylhýra er hugarfóstur tveggja nemenda við Háskóla Íslands, Önnu Steinunnar Ingólfsdóttur laganema og Egils Sigurðar Friðbjarnarsonar læknanema.

Samkeppnin um Gulleggið hefur farið fram allt frá árinu 2008 og er ætlað að gefa frumkvöðlum tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi. 

Verðlaunahafar í samkeppninni um Gulleggið kampakátir á Háskólatorgi í gær.