Skip to main content
22. júní 2018

Hljóta verðlaun fyrir námsárangur í eðlisfræði og efnafræði 

""

Tveir nemendur sem útskrifast úr grunnnámi með BS-gráðu í eðlisfræði og efnafræði við Háskóla Íslands háskólaárið 2017-2018 hljóta verðlaun úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi í ár. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 21. júní. Verðlaunaféð nemur einni og hálfri milljón króna.

Bergþór Traustason hlýtur eina milljón króna fyrir námsárangur í verkfræðilegri eðlisfræði en hann brautskráist með ágætiseinkunn, 9,26. Bergþór hefur hlotið styrk frá hinum virta Cambridge-háskóla í Bretlandi til að hefja framhaldsnám í líftækni í haust. Hann er meðal tæplega 100 erlendra nemenda sem valdir voru úr hópi nærri 6.000 umsækjenda um styrk til náms við skólann. 
 
Sigríður Stefanía Hlynsdóttir hlýtur hálfa milljón króna fyrir námsárangur í efnafræði með einkunnina 8,80. Hún er á leið í framhaldsnám í lífefnafræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Átti ekki kost á að stunda háskólanám 
Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi var stofnaður árið 2000 með rausnarlegri gjöf Guðmundar, sem hann bætti síðar tvívegis í. Hann fæddist á Sýruparti á Akranesi 1909 og bjó um árabil á Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi. Guðmundur P. Bjarnason lést í febrúarmánuði 2006 í hárri elli. Hann átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi auk þess að stunda útgerð í félagi við bróður sinn. Guðmundur var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness árið 1933. 

Ljóst er að hlutfallslega færri nemendur sækja háskólanám í eðlisfræði og efnafræði á Íslandi en í samanburðarlöndum okkar. Stuðningur Guðmundar við háskólanemendur í eðlis- og efnafræði er því mikilvægt lóð á þá vogarskál að hvetja unga Íslendinga að sækja nám í þessum fögum.

Stjórn Verðlaunasjóðs Guðmundar P. Bjarnasonar frá Akranesi skipa Guðmundur G. Haraldsson, prófessor í efnafræði sem er formaður, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði, og Eiríkur Dór Jónsson, fulltrúi Arion banka sem er vörsluaðili sjóðsins samkvæmt skipulagsskrá. 

Styrkþegarnir Sigríður Stefanía Hlynsdóttir og Bergþór Traustason fyrir miðju ásamt stjórn sjóðsins, rektor Háskóla Íslands og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
Bergþór Traustason tekur við styrknum úr hendi Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors í efnafræði og formanns stjórnar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Sigríður Stefanía Hlynsdóttir tekur við styrknum úr hendi Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors í efnafræði og formanns stjórnar. MYND/Kristinn Ingvarsson