Skip to main content
28. maí 2019

Hljóta styrk til sumarnáms í Caltech 2019

Tveir nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands hljóta í sumar Kiyo og Eiko Tomiyasu-styrk til að vinna tíu vikna verkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Nemendurnir sem halda nú til Caltech eru Eyvindur Árni Sigurðarson, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, og Guðrún Höskuldsdóttir, nemi í verkfræðilegri eðlisfræði. 

Þessum styrkjum er nú úthlutað í tólfta sinn en frá árinu 2008 hafa Háskóli Íslands og Caltech haft með sér skipulegt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Frá upphafi SURF-samstarfsins 2008 hafa samtals 30 nemendur Háskóla Íslands haldið til sumarnáms við Caltech og nú bætast tveir nemendur í þann hóp. 

Caltech-háskóli er einn fremsti rannsóknaháskóli heims og skipar m.a. fimmta sæti hins virta matslista Times Higher Education World University Rankings. Dr. Kiyo Tomiyasu (1919-2015), sem var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði, var lykilmaður í að koma á samstarfinu milli Caltech og Háskóla Íslands. Styrkirnir sem Háskóli Íslands veitir til námsins bera nafn hjónanna Kiyo og Eiko Tomiyasu en þau hafa sýnt íslenskum nemendum við Caltech einstaka velvild í gegnum árin.
 

Frá afhendingu styrkjanna á skrifstofu rektors á dögunum. Frá vinstri: Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðrún Höskuldsdóttir, Eyvindur Árni Sigurðarson og Pétur Ástvaldsson, verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu.