Skip to main content
15. júní 2018

Hljóta styrk til sumarnáms í Caltech

""

Tveir nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands hljóta í sumar Kiyo og Eiko Tomiyasu-styrk til að vinna tíu vikna verkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Nemendurnir sem halda nú til Caltech eru Harpa Ósk Björnsdóttir, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Stefán Eggertsson, nemi í lífefna- og sameindalíffræði. 

Þessum styrkjum er nú úthlutað í ellefta sinn en frá árinu 2008 hafa Háskóli Íslands og Caltech haft með sér skipulegt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Frá upphafi SURF-samstarfsins 2008 hafa samtals 28 nemendur Háskóla Íslands haldið til sumarnáms við Caltech og nú bætast tveir nemendur í þann hóp. Frá Caltech koma nemendur til Háskóla Íslands, að þessu sinni Jake Mattinson, sem vinnur í sumar  rannsóknarverkefni hjá Guðlaugi Jóhannessyni, fræðimanni við Raunvísindastofnun.

Caltech-háskóli er einn fremsti rannsóknaháskóli heims og skipar m.a. þriðja sæti hins virta matslista Times Higher Education World University Rankings. Dr. Kiyo Tomiyasu (1919-2015), sem var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði, var lykilmaður í að koma á samstarfinu milli Caltech og Háskóla Íslands. Styrkirnir sem Háskóli Íslands veitir til námsins bera nú nafn hjónanna Kiyo og Eiko Tomiyasu en þau hafa sýnt íslenskum nemendum við Caltech einstaka velvild í gegnum árin.
 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefán Eggertsson, Harpa Ósk Björnsdóttir og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar