Hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni | Háskóli Íslands Skip to main content

Hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni

28. júní 2016

Tanya Helgason hlaut nýverið viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni til B.Ed.-prófs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerð hennar ber heitið: „Að læra íslensku og stærðfræði samtímis – Stærðfræðinám nemenda af erlendum uppruna“ og naut hún leiðsagnar Guðbjargar Pálsdóttur, dósents við Kennaradeild. Alls voru sjö ritgerðir tilnefndar.

Í umsögn dómnefndar segir m.a: „Í ritgerðinni sýnir Tanya gott vald á að vinna með fræðilegan texta og fjalla á þroskaðan en jafnframt agaðan hátt um viðfangsefnið. Hún hefur kynnt sér vel fjölbreyttar rannsóknir og hugmyndir um atriði sem talin eru skipta máli fyrir nemendur sem eru að ná fótfestu í skólakerfi í nýju landi. Um efnið hefur lítið verið ritað á íslensku og ekki með því sjónarhorni sem Tanya velur.“

Enn fremur segir að líklegt sé að ritgerðin verði nýtt í námskeiðum við Kennaradeild á kjörsviði í stærðfræði og íslensku.

Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn við Háskóla Íslands þann 23. júní síðastliðinn.

Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar

Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989.

Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni.

Stjórn sjóðsins skipa: Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri, Ingibjörg Harðardóttir lektor, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Sigurður Konráðsson prófessor sem jafnframt er formaður stjórnar.

Hér má sjá myndir frá afhendingunni.

Jóhanna Einarsdóttir, Tanya Helgason og Sigurður Konráðsson
Jóhanna Einarsdóttir, Tanya Helgason og Sigurður Konráðsson

Netspjall