Skip to main content
17. desember 2021

Hlaut Evrópumerkið í tungumálum

Hlaut Evrópumerkið í tungumálum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Pilar Concheiro, spænskukennari við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur fengið Evrópumerkið í tungumálum (European Language Label) fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Viðurkenningin var veitt fyrir verkefnið Telecollaboration sem er samstarfsverkefni spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Háskólans í Barcelona í umsjón Pilar. Evrópumerkið í tungumálum er veitt annað hvert ár hér á landi.

Á vefsíðu Rannís kemur fram að tíu tillögur hafi borist dómnefnd og niðurstaðan verið sú að verkefnið uppfylli öll markmið viðurkenningarinnar, og fái að auki 300 þúsund kr. styrk til frekari þróunar.

Þar segir einnig að Telecollaboration verkefnið gefi „spænskunemum við Háskóla Íslands tækifæri til að læra spænsku undir handleiðslu kennaranema í Háskólanum í Barcelona auk þess sem tækifæri gefst til að þjálfa fjölmenningarleg samskipti. Samvinnunám af þessu tagi kallast rafrænt tandem-nám þar sem gert er ráð fyrir að nemar þrói og hanni tungumálanámið á eigin forsendum undir leiðsögn kennara og þannig fá nemendur raunverulega og þroskandi sýn á tungumálanám sitt. Slíkt nám má einnig flokka sem jafningjanám sem byggir á gagnkvæmum samfélagslegum, menningarlegum og listrænum hugmyndum. Þannig gefst þátttakendum tækifæri til að deila áhugamálum sínum á skapandi hátt milli landa.“

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Rannís.

Pilar Concheiro, spænskukennari við Mála og menningardeild Háskóla Íslands