Skip to main content
8. nóvember 2017

HÍ meðal þeirra bestu á sviði lífvísinda og heilbrigðisvísinda

Háskóli Íslands er í sæti 126-150 yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda og í sæti 176-200 á sviði heilbrigðisvísinda samkvæmt mati tímaritsins Times Higher Education. Þetta kom í ljós í dag þegar tímaritið birti þrjá nýja lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum.

Alls hefur Háskólinn komist á fimm lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum nú í haust. Auk lífvísinda og heilbrigðisvísinda hefur háskólinn komist í hóp þeirra fremstu á sviði verkfræði og tækni og hugvísinda og félagsvísinda. Tímaritið birti einnig heildarlista yfir bestu háskóla heims snemma í haust og þar var Háskólinn í 201.-250. sæti. 

„Þetta er mjög gaman að heyra og í raun í samræmi við þá miklu vinnu og vísindaframlag sem deildir Heilbrigðisvísindasviðs hafa lagt fram. Rannsóknir á heilsu eru krefjandi, svo og klínískar rannsóknir. Vinna Heilbrigðisvísindasviðs er bæði innan og utan Háskóla Íslands því eðli náms og rannsókna í greinunum krefst mikils samneytis við spítala og aðra stofnanir. Samstarfsaðilar okkar eiga því líka heiður skilinn,“ segir Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Við vinnslu allra matslistanna, bæði fyrir háskóla í heild og einstök fræðasvið, er horft til sömu þátta, þ.e. rannsóknastarfs, áhrifa rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Við mat á fremstu háskólum heims á sviði lífvísinda er horft til frammistöðu skólanna á fjölbreyttum fræðasviðum, líffræði, íþrótta- og heilsufræði, landbúnaðar og dýralæknisfræði. Alls komast 500 háskólar á lista Times Higher Education á þessu sviði og sem fyrr segir er háskólinn í sæti 126-150 á þessu sviði.

Innan fræðasviða sem taka til heilbrigðisvísinda er horft til læknisfræði, tannlæknisfræði og annars konar heilbrigðisvísinda en líkt og í tilviki lífvísinda nær listi Times Higher Education til 500 háskóla. Á þessum fræðasviðum er Háskóli Íslands í 176.-200. sæti yfir bestu háskóla heims. 

„Þetta er frábær niðurstaða sem er staðfesting á því að lífvísindi og heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands eru í fremstu röð í heiminum. Háskólinn á gríðarlega sterka samstarfsaðila innanlands og utan á þessum sviðum. Ég óska starfsfólki, stúdentum og samstarfsaðilum okkar innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Times Higher Education á enn eftir að birta einn lista í vetur, en hann snýr að náttúruvísindum. 
Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda og heilbrigðisvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins: 
https://www.timeshighereducation.com/news/world-university-rankings-2018-subject-psychology-life-sciences-and-clinical-results-out-now

Aðalbygging Háskóla Íslands