Skip to main content
28. nóvember 2019

„Heyrðu“ og „ha“ ekki séríslensk fyrirbrigði

„Ætlarðu til útlanda í sumar?“
„Heyrðu, já, við ætlum að skella okkur til Ítalíu“

Eflaust kannast margir við að hafa ýmist heyrt eða notað sjálf(ir) orðið „heyrðu“ á þennan hátt í upphafi svars í samtali. Þessi nýjung í orðavali hefur kveikt líflegar umræður á spjallborðum áhugafólks um málfar á samfélagsmiðlum og sýnist sitt hverjum. Þessi notkun á „heyrðu“ er hins vegar hinn eðlilegasti hlutur í talmálinu, að sögn Rósu Signýjar Gísladóttur, lektors í almennum málvísindum við Háskóla Íslands, sem rýnt hefur í þessa nýju tilhneigingu.

Rósa ræddi um „heyrðu“ í forvitnilegu erindi sem hún flutti á viðburði sem Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, almennum málvísindum og táknmálsfræði, stóð fyrir í Háskóla Íslands á degi íslenskrar tungu. 

„Í málvísindunum eru þessi orð nefnd orðræðuagnir en það eru í raun einingar í talmáli sem ekki vísa til hluta eða lýsa atburðum en gegna ýmiss konar hlutverki í félagslegum samskiptum,“ segir hún. Auk „heyrðu“ má nefna orð eins og „ha“, „hérna“, „bara“, „sko“ og „þúst“ (stytting á þú veist). „Þessi orð hafa líka verið kölluð hikorð og þykja gjarnan lýti á máli, en það viðhorf samræmist ekki niðurstöðum rannsókna þar sem samtöl eru skoðuð ítarlega,“ bætir Rósa við.

„Heyrðu“ hefur lengi verið notað til að beina athyglinni að einhverju nýju í samtali milli fólks, t.d. í setningum eins og: 

„Heyrðu, hvernig ætlum við að hafa þetta í kvöld?“ 

Það er hins vegar tiltölulega nýleg þróun að orðið sé notað í upphafi svara, eins og í setningunni hér efst í textanum: 

„Heyrðu, já við ætlum að skella okkur til Ítalíu“.

Rósa bendir á að notkun á „heyrðu“ hafi verið tekin upp í Facebook-hópum eins og Málvöndunarþættinum þar sem agnúast hafi verið út í hana. „Hins vegar vitum við að skynjunarsagnir eins og „heyra“ fá oft aðra merkingu í tungumálum heimsins sem hefur í raun ekkert að gera með skynjun,“ segir hún og vísar til rannsóknar San Roque og félaga á sögninni „heyra“ í samtölum í 13 tungumálum sem birt var í fyrra. „Þar kom í ljós að við Íslendingar erum alls ekki sér á báti hvað þetta varðar. Við sjáum sams konar tilhneigingu til að nota skynjunarsagnir eins og „heyra “sem orðræðuögn í ensku (listen), spænsku (oiga),  sænsku (hör du) og siwu, sem er talað í Ghana. Í öllum tungumálunum beinir „heyrðu“ athygli að því sem mælandinn er að fara að segja, oftast nær þegar um er að ræða nýtt umræðuefni. Því má segja að „heyrðu“ í íslensku endurspegli almenna tilhneigingu í tungumálum til að endurnýta skynjunarsagnir í orðræðuögnum.“ Óþarfi sé að vera með fordóma gagnvart orðanotkun af þessu tagi, tungumál þróist með tímanum og það eigi við bæði um ritmál og talmál eins og í þessu tilviki. Hún bendir þó á að nánari rannsóknir á „heyrðu“ í upphafi svara í íslensku séu nauðsynlegar til að skilja hlutverk orðræðuagnarinnar að fullu. 

„Samskiptamálfræði og greining á hversdagslegum samtölum eru nauðsynleg verkfæri til að ryðja úr vegi fordómum um íslenskt talmál. Íslensku er enginn greiði gerður með því að stimpla fullkomlega eðlileg fyrirbæri í tungumálinu sem lýti,“ segir Rósa Signý Gísladóttir.

Samskiptamálfræði gegn fordómum um íslenskt talmál

Rósa segir enn fremur að svipað sé upp á tengingnum með orðræðuögnina „ha“. Fólk notar hana almennt þegar það heyrir ekki eða skilur ekki hvað viðmælandinn segir, en einnig í öðru samhengi, t.d. sem merki um undrun.

„Ha er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði og er raunar til í flestum ef ekki öllum tungumálum, samkvæmt rannsókn á um 30 tungumálum sem ég tók þátt í. Íslenska ha-ið greinir sig hins vegar frá flestum öðrum í okkar rannsókn að því leyti að það er borið fram með fallandi tónfalli,“ bendir Rósa á og bætir við: „Ha og heyrðu gegna mjög mikilvægu hlutverki í samskiptum fólks og eru langt frá því að vera orðskrípi eins og sumir vilja halda fram. Þau eru nokkurs konar umferðarmerki í samskiptum, gegna mikilvægu hlutverki í því að stýra flæði samtala og gefa til kynna hvernig það sem sagt er tengist því sem fór á undan.“

Tekist er á við talmálið í svokallaðri samskiptamálfræði en rannsóknum á því sviði fer fjölgandi hér á landi. „Samskiptamálfræði og greining á hversdagslegum samtölum eru nauðsynleg verkfæri til að ryðja úr vegi fordómum um íslenskt talmál. Íslensku er enginn greiði gerður með því að stimpla fullkomlega eðlileg fyrirbæri í tungumálinu sem lýti,“ segir hún enn fremur. „Ég tel að það séu mikil tækifæri fólgin í því að efla áhuga og rannsóknir á íslensku eins og hún er raunverulega notuð í samtölum, bæði í sambandi við viðhorf til íslensku sem námsgrein í skólakerfinu, viðhorf almennings til móðurmálsins og einnig í sambandi við átak í uppbyggingu á íslenskri máltækni.“

Rósa Signý Gísladóttir