Skip to main content
23. janúar 2019

Helmingi færri einnota nestisbox nýtt í Hámu í fyrra en árið 2017

""

Tekist hefur að draga verulega úr notkun einnota matarboxa í Hámu á Háskólatorgi með tilkomu nýrra fjölnota boxa. Samdrátturinn í notkun einnota boxa á milli áranna 2017 og 2018 nemur nærri 50%.

Fyrir rúmu ári hóf Háma að bjóða upp á fjölnota matarbox fyrir starfsmenn og stúdenta og jafnframt var ákveðið að byrja að rukka sérstaklega fyrir einnota box. Árangurinn af þessu átaki hefur ekki látið á sér standa því notkun á einnota boxum fór úr 26.500 stykkjum árið 2017 í 13.400 í fyrra. Það þýðir samdrátt í notkun um 13.100 stykki! Það munar um minna fyrir umhverfið.

Á fjármálasviði Háskóla Íslands borðar starfsfólk hádegismatinn saman og tekur hann alla jafna með sér úr Hámu og yfir í Aðalbyggingu. Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, ákvað að útvega öllum starfsmönnum sviðsins fjölnota nestisbox og á sviðið því sinn þátt í samdrættinum á notkuninni.

Sveinbjörn Traustason, starfsmaður launadeildar, segist nýta boxið að jafnaði fjórum sinnum í viku og má því reikna með að hann spari tæplega 180 einnota box á árinu með því að sækja matinn sinn í fjölnota boxi. Anna Ólafsdóttir, sem einnig starfar á launadeild, segir langstærstan hluta starfsmanna deildarinnar hættan að taka einnota box undir mat og nýti í staðinn fjölnota ef matur er sóttur í Hámu.

Háskólaborgarar og gestir í Hámu eru hvattir til að fylgja fordæmi fjármálasviðs og annaðhvort nýta margnota leirtau þegar borðað er í Hámu eða fjölnota nestisbox. Sömuleiðis skiptir máli að drekka kaffið sitt úr fjölnota bollum og hugsa reglulega um það hvað hver og einn getur gert til þess að draga úr sorpi sem fellur til á háskólasvæðinu. Það er í senn umhverfisvænt og hagkvæmt fyrir háskólasamfélagið. Litlu skrefin geta nefnilega verið ansi stór þegar allir leggjast á eitt!

fjölnota box í Hámu