Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í Háskólaherminum | Háskóli Íslands Skip to main content
6. febrúar 2019

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í Háskólaherminum

Frá Háskólaherminum 2018

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða m.a. í forgrunni þegar um 300 framhaldsskólanemar alls staðar af landinu heimsækja Háskóla Íslands og taka þátt í Háskólaherminum 7. og 8. febrúar. Þetta er í fjórða sinn sem Háskólinn stendur fyrir herminum og býður þannig framhaldsskólanemum að taka virkan þátt í háskólasamfélaginu.

Háskólahermirinn var settur á laggirnar árið 2016 með það að markmiði að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast starfsemi og námsframboði Háskólans af eigin raun og um leið styðja það í að taka upplýsta ákvörðun um nám og starf í framtíðinni. Verkefnið er jafnframt liður í að efla frekar samstarf Háskóla Íslands við framhaldsskóla landsins.

Öll fimm fræðasvið Háskólans taka þátt í Háskólaherminum og mun hver þátttakandi heimsækja fjögur þeirra og kynnast námsframboði þar í gegnum fjölbreytt og forvitnileg verkefni og fræðslu. Í ár verður m.a. áhersla lögð á það hvernig hvernig ólíkar námsleiðir innan Háskólans snerta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en markmiðin snúa m.a. að fátækt og hungri, menntun og heilsu, jafnrétti og sjálfbærni og nýsköpun og jöfnuði. 

Framhaldskólanemar, sem heimsækja Heilbrigðisvísindasvið, munu t.d. kynnast því hvernig ólíkar greinar sviðsins efla heilsu fólks í gegnum dæmi af alvarlegu bílslysi þar sem ölvunar- eða lyfjaakstur kemur við sögu. Á Félagsvísindasviði verða málefni flóttamannafjölskyldu frá Sýrlandi í brennidepli og þátttakendur kynnast bæði aðstæðum hennar, ástæðum þess að fjölskyldan er á flótta og hverju þarf að huga að til að hún geti aðlagast nýju samfélagi. 

Dagskrá Háskólahermisins fer fram víða á háskólasvæðinu sem gefur framhaldsskólanemum jafnframt tækifæri á að kynna sér aðstöðu og víðtæka þjónustu skólans við nemendur. 

Háskólahermirinn hefur notið fádæma vinsælda frá því að hann var settur á laggirnar og í ár fylltist í öll 300 sætin á viðburðinum á einungis tíu mínútum. Framhaldsskólanemarnir sem taka þátt að þessu sinni koma úr öllum landsfjórðungum og eru þátttökuskólar 23 sem er met.

Nánari upplýsingar um Háskólaherminn er að finna á vef Háskóla Íslands.
 

Nemendur í Háskólaherminum 2018