Skip to main content
29. maí 2024

Hefðbundnir fjölmiðlar afar mikilvægir á tímum upplýsingaóreiðu 

Hefðbundnir fjölmiðlar afar mikilvægir á tímum upplýsingaóreiðu  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við sjáum það í rannsóknum á fjölmiðlanotkun að fólk nálgast nú upplýsingar töluvert mikið í gegnum samfélagsmiðla og mörg hlaðvörp eru vinsæl. Á Íslandi er samfélagsmiðlanotkun mjög mikil. Þetta breytir samt því ekki að hefðbundnir fjölmiðlar eru enn ákaflega mikilvægir og langflest fólk hér á landir notar þá daglega til að nálgast fréttir og upplýsingar,“ segir Jón Gunnar Ólafsson, nýr lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sem kenna mun við nýja námsleið í blaðamennsku sem byrjað verður að bjóða upp á í haust.

Jón Gunnar hefur undanfarin ár starfað sem nýdoktor við Stjórnmálafræðideild. Í rannsóknum sínum rýnir hann í samspil fjölmiðla og stjórnmála, meðal annars hvernig fjölmiðlar fjalla um stjórnmál, hvernig upplýsingar dreifast á samfélagsmiðlum og hvernig falsfréttir og upplýsingaóreiða hafa haft áhrif á lýðræðislega umræðu. 

Mörg spennandi viðfangsefni á lítt plægðum rannsóknarakri

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á fjölmiðlum og hvernig þeir fjalla um málefni líðandi stundar. Áður en ég fór að vinna í akademíunni starfaði ég um tíma við blaðamennsku. Mér fannst mjög gefandi og áhugavert að vinna fréttir og það sem vakti fljótt forvitni hjá mér var vinnustaðamenningin á fjölmiðlum og ferlið að baki því að vinna fréttirnar, sérstaklega á sviði stjórnmála. Fjölmiðlareynslan og þessi forvitni varð þess valdandi að mig langaði að fara í doktorsnám á þessu sviði,“ segir Jón Gunnar sem lauk doktorsprófi í fjölmiðla- og boðskiptafræðum frá Goldsmiths, University of London árið 2019.

Rannsóknir Jóns Gunnars hafa m.a. beinst að íslenskum fjölmiðlum og þá sérstaklega dreifingu upplýsinga um stjórnmál í íslensku samfélagi. „Þetta er mjög mikilvægt rannsóknarsvið þar sem fjölmiðlar gegna þýðingarmiklu lýðræðishlutverki í samfélaginu, meðal annars með því að veita valdhöfum aðhald og miðla mikilvægum upplýsingum til almennings. Rannsóknir um fjölmiðla og blaðamennsku hafa verið af heldur skornum skammti hér á landi ef við berum okkur til dæmis saman við hin norrænu ríkin. En það er sem betur fer margt í gangi hér á landi núna og við erum nokkur sem erum að vinna rannsóknir um íslenska fjölmiðla. Að vera á lítt plægðum akri býður upp á mörg spennandi rannsóknarefni í brautryðjendastarfi,“ segir hann enn fremur. 

Samfélagsmiðlar helstu fréttaveiturnar hjá mörgu ungu fólki

Engum dylst hversu mikil áhrif tilkoma samfélagsmiðla hefur haft á samfélög víða um heim, en eitt af því sem þeir hafa breytt er hvernig fólk nálgast upplýsingar. „Fólk notar samfélagsmiðla í alls kyns afþreyingu en einnig til að nálgast fréttir og upplýsingar. Íslendingar eru mjög virkir á samfélagsmiðlum og margir byrja daginn á því að kíkja á samfélagsmiðla í snjallsímanum sínum og skoða „hvað er að frétta“. Við sjáum til dæmis að margt ungt fólk er farið að nota samfélagsmiðla eins og TikTok sem sínar helstu fréttaveitur,“ bendir Jón Gunnar á.

Hann bætir við að það séu notendur sjálfir sem búi oft til efnið á samfélagsmiðlum og deili því áfram. „Þetta sést til dæmis í myndböndum, myndum, viðburðum og öðru sem fólk deilir á samfélagsmiðlum. Þarna er augljós munur á samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir síðarnefndu leggja mikla áherslu á að miðla efni sem er búið til af fagfólki. Blaðamenn sem vinna á fjölmiðlum eiga að sjá um að fara vel yfir upplýsingar sem berast þeim, sannreyna þær, ákveða hvort upplýsingarnar eiga erindi til almennings, leita ólíkra sjónarmiða þegar það á við, gæta að hlutlægni og vinna efni úr upplýsingunum í framhaldi. Því er svo miðlað út í samfélagið í kjölfarið. Þannig hafa fjölmiðlar verið álitnir hliðverðir (e. gatekeepers) samfélagslegrar umræðu. Þá hafa þeir einnig sett mál á dagskrá,” segir Jón Gunnar.

Með tilkomu samfélagsmiðla sé þessi hefðbundna hliðvarsla ekki lengur til staðar með sama hætti og í fjölmiðlum. „En hefðbundnir fjölmiðlar nota núorðið oft efni af samfélagsmiðlum sem heimildir og því er mikið talað um að skilin milli fjölmiðla og samfélagsmiðla séu sífellt að verða óljósari upp að vissu marki,“ bendir Jón Gunnar á.

bladamennskunemi

Boðið verður upp á nýtt nám í blaðamennsku við HÍ frá og með haustinu.

Fólk treystir hefðbundnum miðlum betur en samfélagsmiðlum

Jón Gunnar segir þó að það þýði ekki að hinir hefðbundnu fjölmiðlar séu endilega á útleið. „Það er mikilvægt að benda á að samkvæmt rannsóknum treystir fólk hefðbundnum fjölmiðlum miklu meira en samfélagsmiðlum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í þessu samhengi. Það er mjög mikið af efni í boði á alls kyns samfélagsmiðlum og í hlaðvörpum en á sama tíma var áhorfið á fyrstu kappræður frambjóðenda á RÚV í kringum 50%. Það er rosalega mikið áhorf og sýnir vel bæði vinsældir en eins mikilvægi hefðbundinna fjölmiðla í augum fólks,“ segir Jón Gunnar. 

Samtal stjórnmálafólks og almennings á samfélagsmiðlum mun virkara hér

Bæði hinir hefðbundnu fjölmiðlar og samfélagsmiðlar koma við sögu í nýju og spennandi 120 eininga BA-námi í blaðamennsku sem hefst í haust. Í starfi sínu sem lektor mun Jón Gunnar m.a. kenna námskeið um stafræna miðla og íslenska fjölmiðlalandslagið í alþjóðlegu samhengi. Þá kennir hann einnig námskeið við Stjórnmálafræðideild, sem blaðamennskunemar geta líka tekið, um falsfréttir og upplýsingaóreiðu og annað námskeið sem snýr að stjórnmálaumfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Hvort tveggja er meðal áherslna hans í rannsóknum.

„Ég hef mikið verið að skoða samskipti kjörinna fulltrúa við blaðamenn en einnig almenning. Í rannsóknum erlendis hefur í gegnum tíðina töluvert verið spáð í völd og áhrif stjórnmálafólks í samskiptum við blaðamenn og öfugt. Hér á Íslandi hef ég tekið fjölda viðtala við stjórnmála- og fjölmiðlafólk þar sem ég var meðal annars að skoða hvað einkennir samband þeirra. Og það sem hefur einmitt komið í ljós er að samfélagsmiðlar spila þar mjög stórt hlutverk. Fólk á í samskiptum í gegnum miðlana og þeir eru mikilvægt vinnutæki,“ segir Jón Gunnar.

Hann bendir enn fremur á að á fyrstu árum samfélagsmiðla hafi mikið verið rætt um að þeir gætu stuðlað að meiri samskiptum milli kjörinna fulltrúa og almennings og þannig haft jákvæð áhrif. „Þessi jákvæða umræða virkar svolítið sérstök í dag en eins og við þekkjum þá hefur umræðan um samfélagsmiðla heldur betur orðið neikvæðari undanfarið, meðal annars í samhengi við skautun og upplýsingaóreiðu. Rannsóknir erlendis sýna að stjórnmálafólk er ekkert endilega í miklu samtali við almenning á samfélagsmiðlum heldur meira í einhliða upplýsingamiðlun. Í mínum rannsóknum hér á Íslandi hefur hins vegar komið í ljós að samtalið er mun virkara. Þar spila óformlegheitin hér á landi inn í sem og smæð samfélagsins og stuttar boðleiðir,“ segir hann og bætir við: „Mér finnst ákaflega mikilvægt að halda áfram að rannsaka dreifingu upplýsinga um stjórnmál í íslensku samfélagi og hlakka til að fást við það á komandi árum.“

„Í lýðræðissamfélögum skiptir máli að fólk sé sæmilega upplýst um það sem er í gangi til að geta til dæmis lagt mat á hvernig stjórnvöld eru að standa sig. Rannsóknir um íslenska fjölmiðla eru mikilvægt púsl í umræðuna um stöðu lýðræðis á Íslandi í dag og í framtíðinni,“ segir Jón Gunnar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Íslenskir kjósendur notuðu mest netmiðla og sjónvarp

Jón Gunnar situr einnig í stjórn Íslensku kosningarannsóknarinnar sem snýr að stjórnmálaviðhorfum og kosningahegðun fólks en sú rannsókn hefur verið starfrækt hér á landi í yfir 40 ár. „Ég kom inn hópinn árið 2021, þegar þingkosningar fóru fram, og held utan um fjölmiðlahluta rannsóknarinnar. Þá var í fyrsta sinn lagður fyrir frekar umfangsmikill fjölmiðlahluti. Við erum því ekki með niðurstöður til að bera saman við fyrri kosningar en getum í framtíðinni farið að bera saman þróun á fjölmiðlanotkun milli kosninga yfir tíma,“ segir hann.

Stjórnendateymið vinnur nú að bók um kosningarnar. „Þar kemur til dæmis fram að íslenskir kjósendur notuðu netmiðla og sjónvarp mest til að fylgjast með kosningabaráttunni 2021 en yngra fólkið var mun duglegra að nota samfélagsmiðla. Yngra fólkið fylgdist almennt minna með en eldri kjósendur. Eins kemur fram að Facebook var enn þá langvinsælasti samfélagsmiðillinn og TikTok kom þá lítið við sögu. En þetta verður eflaust eitthvað breytt í næstu kosningum. Annars hvet ég fólk að sjálfsögðu til að lesa bókina þegar hún kemur út,” bætir Jón Gunnar við. 

Fjölmiðlarannsóknir mikilvægt púsl í umræðu um stöðu lýðræðis

Eins og flestum er kunnugt standa forsetakosningar fyrir dyrum hér á landi og því er freistandi að inna Jón Gunnar eftir hvaða þættir tengdir fjölmiðlum og samfélagsmiðlum hafa mest áhrif á fólk þegar það tekur ákvörðun um hvaða frambjóðanda það kýs.

„Það er mjög erfitt að leggja mat á áhrifin. Það er margt sem spilar þar inn í. Við sáum til dæmis að fylgið fór á ansi mikla hreyfingu eftir fyrstu kappræðurnar á RÚV þannig að einhver áhrif hljóta þær að hafa haft en það er alls ekki alltaf þannig að kappræður hafi mikil áhrif á fylgi. Burtséð frá umræðunni um áhrif þá er mjög mikilvægt að fylgjast vel með og rannsaka hvernig kjósendur fylgjast með umræðunni í kosningabaráttu og eins hvernig fólk fylgist með fréttum almennt. Við sjáum til dæmis að ungt fólk fylgist mun minna með en þau sem eldri eru og þetta er alþjóðleg þróun. Í lýðræðissamfélögum skiptir máli að fólk sé sæmilega upplýst um það sem er í gangi til að geta til dæmis lagt mat á hvernig stjórnvöld eru að standa sig. Rannsóknir um íslenska fjölmiðla eru mikilvægt púsl í umræðuna um stöðu lýðræðis á Íslandi í dag og í framtíðinni,“ segir hann.

samfelagsmidlar

MYND/Adem_Ay/Unsplash

Mest af falsfréttum á samfélagsmiðlum

Eitt af því sem hefur í auknum mæli mótað lýðræðisumræðuna í vestrænum samfélögum undanfarin ár eru falsfréttir og vaxandi upplýsingaóreiða. Aðspurður hvort það sé einhver leið að leggja mat á það hversu stór hluti falsfréttir eru af fjölmiðlaneyslu hins almenna borgara segir Jón Gunnar það erfitt. „Ég hef þó í samvinnu við aðra lagt fyrir spurningakannanir hér á landi sem hægt er að bera saman við gögn í öðrum löndum. Þar sjáum við að magnið virðist ekki minna hér á landi en annars staðar og langflestir segjast sjá mest af röngum og villandi upplýsingum á samfélagsmiðlum,“ segir Jón Gunnar.

Eitt af því sem hægt er að gera til þess að vinna gegn áhrifum falsfrétta að sögn Jóns Gunnars er að leggja meiri áherslu á vandaða blaðamennsku „Það er einmitt í samhengi við þetta upplýsingaumhverfi í dag sem nýja námið í blaðamennskunni er svo þarft. Það er mikilvægt að efla íslenska fjölmiðla, að búa til betri umgjörð þannig að fólk vilji starfa við blaðamennsku til lengri tíma og að meiri þekking sé þá til staðar í stéttinni. Eins er mikilvægt að efla miðlalæsi. Ég vil sérstaklega nefna að Fjölmiðlanefnd hefur verið að gera mjög flotta hluti varðandi rannsóknir á miðlalæsi og eins hefur Blaðamannafélag Íslands verið að standa sig mjög vel í sínu starfi, meðal annars með því að vekja athygli á mikilvægi fjölmiðla á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu,“ bendir hann á.

Annar mikilvægur þáttur í greiningu á og andspyrnu gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu er samstarf rannsakenda þvert á landamæri enda virða falsupplýsingar engin landamæri. Jón Gunnar hefur samhliða kennslu og innlendum rannsóknum tekið þátt í fjölda
alþjóðlegra rannsóknarverkefna, þar á meðal the Media for Democracy Monitor, the Worlds of Journalism Study og DigiWorld: Digital Election Campaigning Worldwide. „Ég er kominn í alls kyns samstarf við erlenda kollega og það er frábært að læra af þeim og eins að geta borið stöðu Íslands saman við það sem gerist erlendis. Ég hlakka mikið til að halda áfram að þróa þetta alþjóðlega samstarf og eins að taka þátt í því að byggja upp öflugt grunnnám í blaðamennsku við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands á komandi árum,“ segir Jón Gunnar að endingu um sitt nýja starf.

Hægt er að sækja um nám í blaðamennsku til 5. júní

Jón Gunnar Ólafsson