Haukur hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar | Háskóli Íslands Skip to main content

Haukur hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

18. október 2018
""

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018 fyrir ljóðahandritið Vistarverur. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða. 

Haukur er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2005 og leggur nú stund á doktorsnám í sömu grein og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi. 

Hann hefur jafnframt fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011). 

Alls bárust 60 óbirt ljóðahandrit til dómnefndar um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar en hana skipuðu skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarson.  

Í niðurstöðu dómnefndar um Vistarverur segir: ,,Í ljóðabók Hauks Ingvarssonar eru margar Vistarverur. Orðið sjálft, vistarvera, gefur til kynna tilfinningu fyrir stað og íbúa auk þess að vísa til tilvistarinnar sjálfrar og stöðu verunnar í henni. Allt þetta kemur saman í ljóðunum en þau einkennast af vangaveltum um tengsl hins efnilega og hins andlega, með áherslu á samfellu þessa. 

Þannig verða byggingar og skip framlenging af sjálfi ljóðmælanda, minningar og draumar taka á sig áþreifanlega mynd í hinum ýmsu vistarverum og veruleikinn sjálfur er jafnframt bundin upplifunum og tengslum við stað og stundir. Ljóðmælandi er á stundum líkt og einskonar draugur í eigin tilveru, hann veltir fyrir sér stöðu sinni í umhverfi sínu og sjálfsmynd og gluggar í stórar spurningar jafnt sem smáar.

Tóntegundin einkennist af hógværð í bland við íhygli og kímni. Heildarmyndin er falleg, margræð og fjölkunnug.“

Haukur Ingvarsson

Netspjall