Hátt í 400 manns sækja alþjóðlegt fornsagnaþing á Íslandi | Háskóli Íslands Skip to main content

Hátt í 400 manns sækja alþjóðlegt fornsagnaþing á Íslandi

10. ágúst 2018

Sautjánda alþjóðlega fornsagnaþingið verður haldið í Reykjavík og Reykholti í næstu viku (13.-17. ágúst). Yfirskrift þess og aðalviðfangsefni er Íslendinga sögur en þess verður einnig minnst í dagskrá þingsins að um þessar mundir eru 900 ár liðin frá upphafi lagaritunar á Íslandi. Fjöldi fræðimanna og stúdenta víðs vegar að sækir þingið og er gert ráð fyrir um 385 þátttakendum að þessu sinni.

Setningarathöfn

Þingið verður sett mánudagsmorguninn 13. ágúst kl. 9 í Háskólabíói (sal A). Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, flytja ávörp áður en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur þingið formlega.

Dagskrá

Á þinginu verða flutt yfir 200 erindi um hvaðeina sem tengist uppruna, þróun og list Íslendinga sagna, en auk þess munu hátt í 40 fræðimenn ræða um lög og samfélag í málstofum undir yfirskriftinni „Með lögum skal land byggja“. Smelltu hér til að skoða dagskrá þingsins.

Fyrirlestrar opnir almenningi

Þrír sérstakir hátíðarfyrirlestrar verða á þinginu. Þeir verða haldnir í Háskólabíói (sal A) og eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir:

Mánudagur 13. ágúst kl. 9.30:

  • Proving facts in Njáls saga. Carol Clover, prófessor emeritus við Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Miðvikudagur 15. ágúst kl. 9:

  • Canon and Archive: Icelandic Legal Manuscripts, Premodern Textuality and Concepts of the Law. Lena Rohrbach, prófessor við háskólana í Zürich og Basel.

Föstudagur 17. ágúst kl. 9:

  • in Svarfaðardalur, c. 1773. Andrew Wawn, prófessor emeritus við háskólann í Leeds.

Meira um alþjóðlegu fornsagnaþingin

Til alþjóðlegu fornsagnaþinganna var stofnað af Hermanni Pálssyni prófessor í Edinborg, sem gekkst fyrir fyrsta þinginu þar árið 1971. Næst var blásið til þings í Reykjavík árið 1973 og það hefur síðan verið haldið á þriggja ára fresti víða um heim, síðast í Sviss.

Að Sautjánda alþjóðlega fornsagnaþinginu standa Háskóli Íslands, Snorrastofa og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur 17 manna nefnd starfsmanna þessara stofnana unnið að undirbúningi þess undir forystu Svanhildar Óskarsdóttur. Auk stofnananna hafa ríkisstjórn Íslands, Alþingi og Reykjavík–bókmenntaborg stutt myndarlega við þingið og styrkir hafa einnig fengist frá íslenskum fyrirtækjum og norrænum sjóðum.

Smelltu hér til að fara á vefsíðu fornsagnaþingsins.

Fólk skoðar handrit

Netspjall