Skip to main content
5. janúar 2021

Háskólinn fær bréfasafn að gjöf, fjársjóð tengdan Vesturheimi

Háskólinn fær bréfasafn að gjöf, fjársjóð tengdan Vesturheimi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Undir lok síðasta árs fékk Háskóli Íslands stórmerka gjöf þegar Birgir Guðjónsson læknir færði skólanum til varðveislu bréfasafn úr dánarbúi Sigrúnar Stefánsdóttur (1898–1986) frá Eyjardalsá í Bárðardal. Þetta gerði Birgir fyrir hönd konu sinnar, Heiðar A. Vigfúsdóttur, en Sigrún var móðir Heiðar. Bréfin veita m.a. mikilvæga innsýn í lífsreynslu íslenskra landnema í Vesturheimi, þar á meðal ættmenna klettafjallaskáldsins Stephans G. Stephanssonar.

Sigrún var landsþekkt á sinni tíð en hún var í forystu á eflingu heimilisiðnaðar á Íslandi. Árin 1951 til 1967 þjónaði hún sem forstöðukona Íslensks heimilisiðnaðar og eftir að hún var komin á eftirlaunaaldur vann hún þar áfram í áratug. Heimildargildi bréfasafnins úr dánarbúi Sigrúnar er ómetanlegt og mun Háskóli Íslands tryggja varðveislu þess með aðkomu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

„Ekki þarf að fjölyrða um gildi bréfa evrópskra innflytjenda Norður-Ameríku á síðari hluta nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu,“ segir Birna Bjarnadóttir, rannsóknarlektor við Háskólann sem veitti bréfunum viðtöku. „Þau hafa mótað hugmyndir okkar um eitt af stærri tímabilum vistaskipta í sögu mannkyns. Ásamt öðrum skrifum innflytjenda og ljósmyndum leggja bréf grunn að rannsóknum þeirra fræðimanna sem gefa sig eftir efninu í hvort heldur fræði- eða ævisögulegum skrifum,“ segir Birna sem starfar sem rannsóknarlektor í nafni þjóðskáldsins Stephans G. Stephanssonar (1853–1927) sem fluttist ungur til Vesturheims. Ásamt því að efla samstarf um alþjóðlegar rannsóknir á landnámi innflytjenda í nútímabókmenntum eflir Birna samstarf Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla á sviði rannsókna og kennslu.

Birna segir að rithöfundar Evrópu hafi sótt í brunn bréfa og frásagna sem farið hafa milli fólks vestan hafs og austan og nefnir hún skáldverkið Híbýli vindanna og Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson sem afar gott dæmi um ríkidæmi þessa fjársjóðs.  

„Af meginlandi Evrópu mætti nefna skáldsöguna Ameríku eftir tékkneska rithöfundinn Franz Kafka sem var gefin út að honum látnum árið 1927 og er til í íslenskri þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar. Eitt helsta tilvistarskáld vestrænna nútímabókmennta er ekki þekkt fyrir að beita félagslegu raunsæi í glímu sinni við mannleg örlög. Það breytir því ekki að í tilurð umræddrar skáldsögu hjó Kafka eftir vitnisburði þýskumælandi innflytjenda í Ameríku, einnig þeirra sem ákváðu að snúa aftur heim.“

Bréfagjöfin og tengsl Háskóla Íslands við Vesturheim

Aðspurð um þau bréf sem Háskóli Íslands fékk til varðveislu segir Birna að þarna séu á ferðinni bréf Rósu Siglaugar Benediktson (1900–1995), dóttur Stephans G. og Helgu Sigríðar Jónsdóttur (1859–1940), til frænku sinnar, Sigrúnar Stefánsdóttur. Gjöfin innihaldi einnig bréf Sigurbjargar Stefánsdóttur (1823–1904), föðursystur Stephans G., úr Vesturheimi til systur sinnar Guðnýjar Stefánsdóttur (1820–1892), þá húsfreyju á Eyjardalsá, langömmu Heiðar A. Vigfúsdóttur. 

„Eftir að hafa ráðfært sig við Stephan Vilberg Benediktson, son Rósu, vildi Birgir færa Háskóla Íslands bréfin. Ein meginástæðan fyrir því er nýstofnuð rannsóknarstaða í nafni Stephans G. í nútímabókmenntum og menningu innflytjenda við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Staðan er í minningu skálda og rithöfunda íslenskunnar í Vesturheimi,“ segir Birna. Hún bætir því að Stephan Vilberg og kona hans, Adriana Benediktson, hafi komið við sögu í tilurð þeirrar stöðu, en þau hafi lagt fram stofnfé í styrktarsjóðinn. „Markmið sjóðsins er að efla alþjóðlegar rannsóknir á sviði nútímabókmennta og menningar innflytjenda, einnig með áherslu á bókmenntir og menningarsögu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi. Börn Stephans Vilbergs hafa einnig gefið ríkulega í sjóðinn, þau Susan Rodriguez Abbiati, Paul David Benediktson og Stephan Robert Benediktson. Meðal annarra styrkveitenda vestan hafs eru Heather Alda og William Ireland, Mooréa og Glen Gray, Donald K. Johnson, Arni Thorsteinson og Oskar Sigvaldason,“ segir Birna. 

Innihald sögulegra bréfa

Þegar kemur að tilraun okkar tíma um ómælisdjúpin í lífi og sögu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi eru bréfin fagnaðarefni að sögn Birnu. Tímarammi þeirra sé umtalsverður og spanni rúma öld, frá árinu 1873 og fram á níunda áratug tuttugustu aldar.

„Bréf Sigurbjargar Stefánsdóttur til systur sinnar Guðnýjar eru frá áttunda og níunda áratugi nítjándu aldar og ferja okkur beina leið inn í lífsreynslu íslensku landnemanna vestan hafs og skynjun þeirra á umskiptunum. Elsta bréf Sigurbjargar til systur sinnar er dagsett 12. október 1873 í Stoughton, Wisconsin, rúmum tveimur mánuðum eftir brottförina frá Íslandi, og hefst á eftirfarandi orðum:

Af hug og hjarta þakka ég þjer fyrir síðasta viðskilnað sem annað gott. Of langt þykist jeg nú vera komin út í veröldina frá þjer besta systir og ykkur kæru frændur á Eyjardalsá, og úti finst mjer öll von að ég fái nú framar að sjá þig persónulega í þessu stundar lífi, en jeg gleð mig við það að þar sem við erum báðar komnar á sýðara hluta æfinnar að ekki líði langt um þar til við fáum að búa saman um alla eilífð í hinu algóða lífinu; og máski líka mjer auðnist að sjá einhvern þinna koma hjer vestur um hið breiða sund og ginnungar gap sem í millum okkar liggur.

Birna segir að Sigurbjörg hafi kvatt lífið sitt á Íslandi í Bárðardal hinn 4. ágúst 1873 og siglt, ásamt eiginmanni sínum Jóni Jónssyni og börnunum þeirra, Helgu og Jóni, frá Akureyri með Drottningunni, (S.S. Queen). 

„Með þeim í för var bróðir Sigurbjargar, Guðmundur Stefánsson, eiginkona hans, Guðbjörg Hannesdóttir, og börn þeirra Stefán (síðar Stephan) og Sigurlaug. Fjölskyldurnar áttu eftir að eiga samleið í Stoughton, Wisconsin og Gardar, North Dakota, og tengjast enn nánari böndum með hjónabandi Helgu Jónsdóttur og Stephans G. Stephanssonar. Fyrir utan að gefa innsýn í líf Sigurbjargar, fjölskyldu hennar og annarra innflytjenda frá frumbýlisárum íslenskra landnema vestan hafs, bera þau skynjun Sigurbjargar á umskiptunum ríkulegt vitni.“      

Birna segir að bréf Rósu Siglaugar Benediktson til Sigrúnar Stefánsdóttur gefi svo innsýn í hugarheim afkomanda íslenskra innflytjenda í Vesturheimi og tengsl við ættingja á Íslandi. Þau séu ekki síst mikilvæg heimild um veruhátt og langlífi íslenskunnar meðal barna íslenskra innflytjenda vestan hafs. 

„Rósa kom tvisvar til Íslands, fyrst árið 1953 þegar minnisvarði Ríkharðs Jónssonar á Arnarstapa í Skagafirði var reistur til heiðurs föður hennar á aldarafmæli hans og síðan árið 1974 þegar Ísland fagnaði þúsund ára afmæli sínu. Bréfin sigldu í kjölfar síðari heimsóknarinnar.“ 

Hver var Rósa Siglaug?

Rósa Siglaug var yngst barna Stephans G. og Helgu og ólst upp í Markerville í Alberta-fylki í Kanada. Nítján ára vildi Rósa breiða út vængina að sögn Birnu „og þökk sé Helgu, móður hennar, þá stundaði hún nám í Olds Agricultural College í Alberta. Árið 1928 giftist hún Sigurði Vilberg Benediktson, hóf búskap á jörð fjölskyldu eiginmannsins í því sem heitir Heckla district í Alberta og þau eignuðust fjögur börn: Helgu Iris, Stephan Vilberg, Conrad Benedikt og Sigurd Theodor Olaf.“ 

Birna segir að árið 1942 hafi þau flutt sig um set til Tindastoll district í Alberta. „Í nóvember það ár, hálfu ári eftir fæðingu yngsta barnsins, lést Sigurður Vilberg,“ segir Birna. „Rósa bugaðist ekki þrátt fyrir það og henni auðnaðist að koma börnum sínum til manns. Hún varð einnig leiðandi afl í baráttunni fyrir því að gera hús foreldra sinna í Markerville að opinberu safni á vegum fylkisstjórnar Alberta. Vígsla Stephan G. Stephansson House átti sér stað 10. ágúst 1975 og flutti Rósa ræðu við það tilefni sem er prentuð í bókinni Looking Back Over My Shoulder. A Memoir by Rosa Siglaug Benediktson (2008) í ritstjórn Mooréu Gray.“

Birgir Guðjónsson og Birna Bjarnadóttir