Skip to main content
11. júní 2021

Háskóli unga fólksins starfræktur á ný í HÍ

Háskóli unga fólksins starfræktur á ný í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um 120 krakkar á aldrinum 12-14 ára sækja Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands dagana 14.-16. júní en skólinn er nú starfræktur á ný eftir hlé vegna heimsfaraldursins. Tungumál og tækjaforritun, COVID-19, stjórnmál, íþróttir og eldgos er meðal þess sem nemendur fást við í skólanum í ár.

Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur allt frá árinu 2004 í Háskóla Íslands en þar kynnast fróðleiksfúsir og fjörugir krakka vísindum og undrum alheimsins út frá ýmsum spennandi og skemmtilegum sjónarhornum. 

Skólinn hefur notið fádæma vinsælda undanafarin ár en vegna COVID-19-heimsfaraldursins var honum aflýst í fyrra. Það er gleðiefni að geta aftur boðið ungu fólki á háskólasvæðið í kjölfar góðs árangurs í baráttunni við faraldurinn hér á landi en dagskráin í ár markast þó nokkuð af samkomutakmörkunum og sóttvarnaviðmiðum.

Skólinn verður í einfaldaðri mynd vegna heimsfaraldursins sem þýðir m.a. að í stað 370 nemenda í venjulegu árferði munu 120 nemendur sækja kennslustundir í skólanum í ár. Nemendur gátu valið á milli tveggja fastra stundataflna með sex námskeiðum hvor og einungis 15 nemendur verða í hverjum nemendahóp. Kennsla fer fram fyrir hádegi í tveimur byggingum skólans, Öskju og Árnagarði, og allt verður gert til þess að gæta ítrustu varúðar vegna faraldursins.

Viðfangsefni nemenda í Háskóla unga fólksins verða engu að síður mjög fjölbreytt og snerta jafnt félagsvísindi, hugvísindi, menntavísindi, heilbrigðisvísindi, verkfræði og náttúruvísindi. Þannig er boðið upp á stundatöflu þar sem efnafræði, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, kínversk fræði, lyfjafræði, stjórnmálafræði og tómstunda- og félagsmálafræði koma við sögu og aðra þar sem viðfangsefnin eru COVID-19, eldfjöll og eldgos, félagsráðgjöf, íþrótta- og heilsufræði, japönsk fræði og tækjaforritun. 

Kennsla í Háskóla unga fólksins er í höndum kennara og nemenda við Háskóla Íslands. 

Skráning í Háskóla unga fólksins fór fram á netinu í lok maímánaðar og reyndist gríðarmikill áhugi fyrir viðburðinum því skólinn fylltist á innan við hálftíma.

Hægt verður að fylgjast með skólastarfinu bæði á vefsíðu skólans og Facebook-síðu hans.
 

Nemendur í Háskóla unga fólksins