Háskóli Íslands verður Grænfánaskóli | Háskóli Íslands Skip to main content
4. mars 2020

Háskóli Íslands verður Grænfánaskóli

Grænfáninn og fáni Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands og Stúdentaráðs skólans tóku í dag við Grænfána Landverndar við opnun Grænna daga í Háskólanum.

Skólinn fær fánann í kjölfar útttektar Landverndar í liðinni viku en þar var lagt mat á það hvort umhverfisnefnd Grænfánans innan Háskóla Íslands hefði náð þeim markmiðum sem nefndin setti sér. Umhverfisnefndin, sem í eiga sæti fulltúar umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs og starfsmaður sjálfbærni- og umhverfismála við Háskóla Íslands, var með fjögur markmið fyrir veturinn til þess að geta flaggað Grænfánanum. Þau sneru að fræðslu um umhverfismál í gegnum miðla Háskólans, loftslagsvænni mat á háskólasvæðinu og minni matarsóun, mótvægisaðgerðum gegn mengun á háskólasvæðinu og umhverfisvænni samgöngum í tengslum við starf skólans. Lesa má um markmiðin og útfærslu þeirra á vef Háskólans.

Markmið Grænfánaverkefnis Landverndar er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education. 

Það var Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd, sem afhenti fulltrúum Háskóla Íslands og Stúdentaráðs, þeim Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, Þorbjörgu Söndru Bakke, verkefnisstjóra sjálfbærni- og umhverfismála, Aðalbjörgu Egilsdóttur, forseta umhverfisnefndar Grænfánans í Háskóla Íslands, og Vigdísi Ólafsdóttur, sem einnig á sæti í nefndinni, Grænfánann við upphaf hinna árlegu Grænu daga á Háskólatorgi í dag. Grænir dagar standa fram á föstudag og þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og viðburði tengda umhverfismálum, svo sem fatamarkað, bíósýningar og málþing. Grænir dagar eru samstarfsverkefni Gaiu, félags nemenda í umhverfis- og auðlindafræði, og umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs. 

Dagskrá Grænna daga má sjá á Facebook-síðu Gaiu
 

Það var Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd, sem afhenti fulltrúum Háskóla Íslands og Stúdentaráðs, þeim Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, Þorbjörgu Söndru Bakke, verkefnisstjóra sjálfbærni- og umhverfismála, Aðalbjörgu Egilsdóttur, forseta umhverfisnefndar Grænfánans í Háskóla Íslands, og Vigdísi Ólafsdóttur, sem einnig á sæti í nefndinni, Grænfánann við upphaf hinna árlegu Grænu daga á Háskólatorgi í dag.