Skip to main content
5. september 2017

Háskóli Íslands styrkir stöðu sína á lista þeirra bestu

-    Heldur stöðu sinni á lista Times Higher Education í harðri samkeppni og bætir sig á öllum mælikvörðum
-    Alþjóðlegur viðurkenndur rannsóknaháskóli er undirstaða fjölbreytts atvinnulífs og leggur grunn að lífsgæðum í landinu, segir rektor Háskóla Íslands
-    Háskóli Íslands er í fyrsta sinn á báðum virtustu alþjóðlegu matslistunum yfir bestu háskóla heims

Styrkur Háskóla Íslands sem alhliða rannsóknarháskóla tryggir honum sæti á matslista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims sjöunda árið í röð. Nýr listi fyrir 2017-2018 var birtur í dag og samkvæmt honum er Háskóli Íslands í 241.-242. sæti yfir bestu háskóla heims en var í 242. sæti í fyrra. Skólinn er enn fremur í 16. sæti yfir bestu háskóla á Norðurlöndum og bætir sig á öllum mælikvörðum í matinu. 

„Þetta er stórkostlegur árangur og staðfesting á því að Háskóli Íslands hefur markað sér rétta stefnu og fylgt henni eftir af festu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Allar þjóðir heims vilja eiga öfluga og framsækna háskóla og keppast við að koma sínum háskólum á þennan virta matslista. Nágrannaþjóðir okkar hafa markvisst fjárfest í háskólum og nýsköpun til að treysta lífsgæði, atvinnulíf og hagsæld. Háskóli Íslands hefur sýnt að hann hefur þann styrkleika sem til þarf til að leika slíkt hlutverk í íslensku samfélagi.“ 

En hvaða máli skiptir það að við Íslendingar séum í allra fremstu röð á þessu sviði? „Það hreinlega tryggir okkur forskot í mjög harðri samkeppni meðal þjóða því góð háskólamenntun leggur grunn að lífsgæðum Íslendinga. Í vor gaf Evrópusambandið út skýrslu um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif vísinda og nýsköpunar. Þar er enn einu sinni staðfest að beint samband er á milli fjármögnunar rannsókna, nýsköpunar og menntunar annars vegar og framleiðniaukningar og hagvaxtar hins vegar. Metnaðarfullar rannsóknir við Háskóla Íslands eru þannig undirstaða fjölbreytts og framsækins atvinnulífs hér á landi og leggja grunn að lífsgæðum í landinu. Þessi endurtekni árangur Háskóla Íslands kemur ekki af sjálfu sér heldur er hann afrakstur einbeitts vilja og þrotlauss starfs framúrskarandi starfsfólks, stúdenta og samstarfsaðila Háskólans,“ segir rektor.

„Háskóli Íslands hefur brautskráð yfir 50.000 einstaklinga sem hafa haslað sér völl á öllum sviðum samfélagsins og lagt grunn að því að hér býr menntuð þjóð í farsælu lýðræðissamfélagi við mikla velmegun. Þetta er einstakur árangur,“ segir rektor enn fremur. 

Háskóli Íslands komst fyrst á lista Times Higher Education á aldarafmæli skólans árið 2011. Fyrstu árin var hann í kringum 270. sæti en hefur síðastliðin þrjú ár verið í hópi 250 bestu háskólanna. Times Higher Education byggir mat sitt á rannsóknastarfi háskólanna, áhrifum þeirra á alþjóðlegum vettvangi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Háskóli Íslands styrkir sig á milli ára á öllum þessum sviðum.

Listi Times Higher Education nær yfir 1.100 háskóla víða um heim. Hann er ásamt Shanghai-listanum (Academic Ranking of World Universities, ARWU) virtasti og áhrifamesti matslistinn yfir bestu háskóla heims. Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn inn á síðarnefnda listann á dögunum. Þar er Háskólinn í sæti 401-500, en þegar horft er til einstakra fagsviða er Háskóli Íslands í 10. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði fjarkönnunar, sem er einstakur árangur. Á Shanghai-listanum er Háskólinn enn fremur í 51.-75. sæti á sviði lífvísinda, 76.-100. sæti í rafmagns- og tölvuverkfræði og í 101.-150. sæti á fræðasviði jarðvísinda. Þá skila rannsóknir innan Háskóla Íslands skólanum í 201.-300. sæti á sviði klínískrar læknisfræði, sæti 301-400 í lýðheilsuvísindum og líffræði mannsins og 401.-500. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði eðlisfræði. 

Niðurstaða Times Higher Education undirstrikar enn frekar styrk Háskóla Íslands sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla en skólinn hefur í meira en áratug lagt áherslu á rannsóknir, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf. 

„Samfélagið og atvinnulífið kallar eftir sífellt sérhæfðara starfsfólki. Árangur okkar sýnir að við höfum svarað því kalli og árangurinn er þannig eign íslensku þjóðarinnar. Það er aftur á móti alls ekki sjálfsagt að okkar litla samfélag skuli eiga háskóla sem nær þessum einstaka árangri ár eftir ár.  Hann getur tapast ef við höldum ekki rétt á spilunum. Hvað fjármögnun varðar er Háskóli Íslands ekki hálfdrættingur á við þá erlendu háskóla sem hann keppir við. Það mun skipta sköpum fyrir framtíð ungs fólks og komandi kynslóða að við fjárfestum í menntun, rannsókum og nýsköpun – að við fjárfestum í Háskóla Íslands,“ segir rektor enn fremur. 

Lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Times Higher Education.

 

Aðalbygging Háskóla Íslands