Skip to main content
11. júní 2019

Háskóli Íslands stærsta stofnunin hérlendis til að fá jafnlaunavottun

""

Háskóli Íslands hefur fengið jafnlaunavottun og er hann langfjölmennasta stofnunin til að fá slíka vottun hérlendis. Vottunin kemur að undangenginni ítarlegri úttekt á launamálum skólans sem náði til hartnær fimm þúsund starfsmanna. Þetta kom fram á ársfundi Háskóla Íslands sem var haldinn 6. júní.

Lög um jafnlaunavottun voru staðfest á Alþingi um mitt ár 2017 en markmiðið með vottuninni er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. 

Fljótlega eftir að lögin voru samþykkt hófst úttekt innan Háskólans á launakerfi hans. Sérstakur stýrihópur um jafnlaunavottun, sem starfaði undir forystu Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektors vísinda, hafði það verk á höndum.

Greining stýrihópsins tók til nærri fimm þúsund manns sem þáðu laun hjá Háskóla Íslands á árinu 2018, nærri 2.000 kvenna og 3.000 karla. Um afar flókið verk var að ræða sem náði bæði til starfsmanna við kennslu og rannsóknir, stjórnsýslu og stoðþjónustu, til fastráðins starfsfólks og þeirra sem eru í tímabundnum stöðum og stundakennslu.

Launagreining innan skólans leiddi m.a. í ljós að þegar tekið var tillit til helstu bakgrunnsþátta, svo sem menntunar, stöðu í skipuriti, aldurs, starfsaldurs, breytilegra yfirvinnutíma, tíma í stundakennslu og starfsheitis reyndist meðallaunamunur á uppreiknuðum heildarlaunum vera 1,5% körlum í hag. Meðalmunur á uppreiknuðum heildarlaunum karla og kvenna án tillits til skýribreyta reyndist vera 11,9% körlum í hag. 

Jafnlaunavottun byggist á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85 og Guðbjörg Linda bendir á að með því að innleiða staðalinn þá sé Háskólinn kominn með tiltekið gæðastjórnunarkerfi sem auki líkurnar á að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun. „Jafnlaunastaðalinn er þó þess eðlis að þótt búið sé að setja upp sjálft jafnlaunakerfið, framkvæma launagreiningu eins og staðallinn kveður á um og fá kerfið vottað er töluverð vinna fram undan í því að skilgreina betur tiltekna þætti kerfisins.“

Vottunin merkir því ekki, að sögn Guðbjargar Lindu, að jafnlaunavinnunni sé hér með lokið heldur að búið sé að framkvæma launagreiningu og skilgreina þá gæðaferla sem unnið verði eftir. „Það að vera búin að innleiða jafnlaunakerfið og fá það vottað er hins vegar afar góður áfangi í svo stórri og flókinni stofnun sem Háskólinn er,“ segir hún.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir það mikið ánægjuefni að Háskólinn sé kominn með jafnlaunavottun og að staðallinn sé mikilvægt tæki til að tryggja að enginn kynbundinn launamunur verði til staðar í Háskóla Íslands. „Allt annað er óásættanlegt,“ segir Jón Atli.  

Jafnlaunavottunin var í höndum BSI á Íslandi, sem er faggild vottunarstofa með höfuðstöðvar í Bretlandi.  

""