Skip to main content
4. júní 2018

Háskóli Íslands og Viðlagatrygging efla jarðskjálftavöktun

Háskóli Íslands og Viðlagatrygging Íslands hafa undirritað samstarfssamninga sem tryggja áframhaldandi rekstur og stækkun á neti jarðskjálftamæla á landinu. Reiknað er með að mælistöðvar verði vel á sjötta tug undir lok næsta árs en þær verða allar reknar af Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði (RHÍJ) sem staðsett er á Selfossi.

Þann 29. maí sl. voru tíu ár liðin frá því að tveir öflugir skjálftar riðu yfir Suðurland en þeir áttu upptök milli Hveragerðis og Selfoss og ollu töluverðum skemmdum víða á svæðinu. Íslenska hröðunarmælanetið (Icelandic Strong Motion Network, IceSMN), sem rekið hefur verið á helstu jarðskjálftasvæðum landsins undanfarna þrjá áratugi, kom að miklu gagni við gagnasöfnun í skjálftunum og þá sérstaklega hvað varðar áraun á mannvirki en umsjón þess hefur verið í höndum Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Tilgangur mælinganna í netinu hefur verið að þróa og endurbæta reiknilíkön fyrir jarðskjálfta, jarðskjálftavá og jarðskjálftaþol mannvirkja og verður það áfram. 

Með samningnum sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, undirrituðu í Háskóla Íslands á dögunum er kveðið á um áframhaldandi samstarf um rekstur hröðunarmælanetsins, söfnun gagna í jarðskjálftum og skilvirka upplýsingamiðlun til Viðlagatryggingar til næstu tíu ára.

Viðlagatrygging mun styrkja rekstur hröðunarmælakerfisins og jafnframt kosta kaup og uppsetningu 14 nýrra hröðunarmæla á suðvesturhorninu og við Grímsey. Með þessum viðbótum verða mælistöðvar á landinu alls 56 í lok árs 2019.

Samkvæmt samningunum nýju mun Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði eiga öll mæligögn úr hröðunarmælanetinu og einkarétt til að dreifa gögnunum til notkunar í rannsóknum og öðrum tilgangi. Viðlagatrygging Íslands mun hins vegar hafa aðgang að þeim líka, m.a. til rannsókna á tjónnæmi vátryggðra eigna og mats á tryggingafræðilegri áhættu Viðlagatrygginga. 

„Þessi samningur við Viðlagatryggingu er mjög mikilvægur fyrir Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði. Hann gerir það mögulegt að fjölga stöðvum í netinu ásamt því að skipta út hröðunarmælum sem hafa skráð stærstu jarðskjálfta á landinu síðastliðin 30 ár en þarfnast nú endurnýjunar,“ segir Símon Ólafsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftafræði á Selfossi.

„Með því að koma á víðtæku neti hröðunarmæla, má draga umtalsvert úr óvissu um umfang atburða sem getur skapast í kjölfar stórra jarðkjálfta. Það er mikilvægt, bæði fyrir Viðlagatryggingu og eigendur fasteigna, að geta fengið niðurstöður úr hlutlægum mælitækjum til að leggja mat á hvort rekja megi tilteknar skemmdir til áhrifa af jarðskjálftum eða ekki. Við teljum þennan samning við Rannsóknarmiðstöðina mikið framfaraskref,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.

Um Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði
Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði var stofnuð árið 2000 með sérstökum samningi milli Háskóla Íslands, menntamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, Árborgar og varnarmálaráðuneytisins. Miðstöðin sinnir grunnrannsóknum á sviði jarðskjálftaverkfræði og gögnin sem miðstöðin safnar liggja til grundvallar áhættustýringu á jarðskjálftum og jarðskjálftahönnun á Íslandi. Þá sinnir miðstöðin einnig ýmiss konar sérhæfðum þjónustuverkefnum fyrir atvinnulíf. Hjá miðstöðinni starfa fimm manns auk þess sem fjöldi framhaldsnema við Háskóla Íslands hefur unnið þar til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir. 

Um Viðlagatryggingu Íslands
Viðlagatrygging er stofnun sem starfar samkvæmt sérlögum frá Alþingi og hefur það hlutverk að vátryggja gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara, s.s. eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Viðlagatrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging eins og viðlagatrygging. Hlutverk stofnunarinnar var skýrt enn frekar með nýjum lögum nú í maímánuði og þegar þau taka gildi 1. júlí 2018 nk. mun nafn stofnunarinnar breytast í Náttúruhamfaratrygging Íslands.

Frá undirritun samninganna á dögunum. Frá vinstri: Símon Ólafsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HÍ í jarðskjálftaverkfræði, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,  Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, og Rajesh Rupakhety, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræði.
Jón Atli Benediktsson og Hulda Ragnheiður Árnadóttir handsala samningana nýju.