Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun mennta fiskifræðinga framtíðarinnar | Háskóli Íslands Skip to main content
5. maí 2020

Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun mennta fiskifræðinga framtíðarinnar

þorskur

Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun hafa  gert með sér samkomulag um samvinnu um nýja námsleið  í sjávar- og vatnalíffræði með áherslu á fiskifræði sem verður í boði frá og með næsta hausti við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskólans. 

Stofnanirnar hafa um árabil átt afar gott samstarf bæði á sviði kennslu og rannsókna. Þannig hafa starfsmenn Hafrannsóknastofnunar m.a. sinnt kennslu við háskólann og kennarar skólans hafa haft rannsóknaraðstöðu á Hafrannsóknastofnun. Auk þess hafa nemendur og kennarar háskólans haft aðgang að rannsóknaskipum stofnunarinnar, bæði til kennslu og rannsókna, og stofnanirnar hafa unnið saman að rannsóknum í tengslum við rannsóknasetur og stofnanir víða um land.

„Það er mér afar mikil ánægja að undirrita þennan samning. Bæði er aukið samstarf við Hafrannsóknarstofnun okkur mikils virði en einnig er frábært að við skulum leggja krafta okkar saman til að bjóða upp á nýtt meistaranám í sjávar- og vatnalíffræði með áherslu á fiskifræði við Líf - og umhverfisvísindadeild. Þetta er nám sem skiptir okkar samfélag miklu máli og frábærir kennarar og rannsakendur standa að því,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Samningurinn um hina nýju námsleið treystir enn frekar samstarf stofnananna tveggja en unnið hefur verið að þróun námsleiðarinnar í vetur. Um er að ræða tveggja ára meistaranám, sem kjörsvið innan líffræði við Háskóla Íslands, sem er byggt að jöfnum hluta á námskeiðum (60 einingar) og  rannsóknarverkefni (60 einingar). Gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun muni ráða sérfræðing til að hafa umsjón með meistaranáminu og sinna kennslu í námskeiðum á námsbrautinni ásamt kennurum Háskóla Íslands.  

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að hið nýja meistaranám sé mjög mikilvægt fyrir framtíð þessara fræðigreina hér á landi. „Einnig er ánægjulegt að líta til þess að með samningnum mun samstarf Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands í rannsóknum og kennslu styrkjast enn frekar. Þannig nýtist rannsóknaaðstaða stofnunarinnar, rannsóknastofur, eldisstöðvar og rannsóknaskip enn betur og nemendur fá aukin tækifæri til rannsókna í sínu námi,“ segir Sigurður.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar verða í hópi leiðbeinenda í rannsóknaverkefnum nemenda en umsjónarkennarar verkefnanna verða fastir akademískir kennarar við námsbraut í líffræði. Enn fremur segir í samningnum að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, sem taka mikinn þátt í kennslu eða leiðbeiningu verkefna, geti sótt um að verða gestakennarar við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Nánar um námsleiðina

ulltrúar Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar hittust niðri á höfn í blíðunni á dögunum og staðfestu samstarfssamninginn en gættu um leið vel að tveggja metra reglunni. Frá vinstri: Sigurður Magnús Garðarson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Sóley Gréta Sveinsdóttir Morthens, sviðsstjóri þróunar, miðlunar og mannauðssviðs Hafrannsóknastofnunar, Jón Atli Benediktsson