Skip to main content
29. september 2020

Háskóli Íslands með fjölmarga viðburði í Nýsköpunarvikunni

""

Háskóli Íslands tekur virkan þátt í Nýsköpunarvikunni sem fram fer í fyrsta sinn dagana 30. september til 7. október og býður upp á viðburði sem spanna allt frá nýsköpun í geðheilbrigðismálum og sköpunar- og tæknismiðjum í grunnskólum til smíði kappakstursbíla, lyfjaþróunar og nýrrar aðferðar við áburðarframleiðslu.  

Fjölmörg fyrirtæki, félög og stofnanir taka þátt í Nýsköpunarvikunni þar sem í boði verða spennandi viðburðir, lausnarmót, pallborðsumræður og fyrirlestrar sem tengjast nýsköpun. Vegna kórónuveirufaraldursins verða flestir viðburðir í Nýsköpunarvikunni rafrænir og á það einnig við um viðburði Háskóla Íslands sem er einn bakhjarla verkefnisins.

Háskólinn ríður á vaðið miðvikudaginn 30. september með hádegisviðburðinum „Geðveik nýsköpun“. Þar munu fulltrúar geðforvarnaverkefnanna Hugur og heilsa og Hugrúnar, sem bæði eiga uppruna sinn í Háskóla Íslands, fjalla um hvernig nýta má nýstárlegar leiðir og hugmyndir til að fræða og styðja ungt fólk í baráttunni við geðlægðir og geðsjúkdóma. Viðburðurinn verður lokaður en streymt verður frá honum á vef á vef og samfélagsmiðlum Háskóla Íslands.

Nánar um viðburðinn og streymi 

Daginn eftir, fimmtudaginn 1. október kl. 16.30, munu félagar í Team Spark, kappakstursliði Háskóla Íslands, fjalla í stuttu erindi um þá fjölbreyttu nýsköpun sem felst í því að þróa rafknúinn kappakstursbíl sem standast þarf strangar alþjóðlegar kröfur. Liðið hefur verið starfrækt við Háskóla Íslands í nærri áratug og hefur ár hvert þróað nýjan, rafknúinn kappakstursbíl í góðri samvinnu við mörg af fremstu þekkingar- og nýsköpunarfyrirtækjum landsins. Liðið hefur farið með bílana á fjölmörg alþjóðleg kappakstursmót verkfræðinema víða um Evrópu og m.a. vakið athygli fyrir nýstárlega hönnun á vængjum.  

Streymt verður frá viðburðinum í Hátíðasal.
 

Föstudaginn 2. október er hin árlega ráðstefna Menntakvika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og verður hún alfarið á netinu. Þar mun nýsköpun í menntun fá sinn sess, m.a. í málstofunum Látum draumana rætast – nýsköpun og tækni og Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi. Öllum málstofum Menntakviku verður streymt á netinu.

Félagar í kappakstursliði Háskóla Íslands, Team Spark, hanna árlega rafknúinn kappakstursbíl og hafa tekið þátt í alþjóðlegum mótum verkfræðinema víða um heim. MYND/Team Spark

Mánudaginn 5. október stendur Nýsköpunar- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs fyrir viðburðinum „Up to Start“. Viðburðurinn fer fram á netinu milli kl. 15.30 og 17.30 og þar gefst áhorfendum, sem eru stíga sín fyrstu skref sem frumkvöðlar, að bæði hlýða á og hitta fólk með reynslu úr nýsköpunargeiranum og fá hjá þeim ráð um t.d. hvernig hægt sé að þróa hugmyndina áfram og hvaða stuðning Háskóli Íslands veitir við nýsköpunar- og frumkvöðlastörf. Viðburðurinn er í beinni á netinu en vakin er athygli á því að þau sem vilja eiga samtal við mentora þurfa að skrá sig sérstaklega.

Þriðjudaginn 6. október kl. 12 er svo komið að viðburðinum „Skyndikynni af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands“. Þar munu fulltrúar sprotafyrirtækjanna Akthelia Pharmaceuticals, Atmonia, Grein Research og Oculis, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í stuttum erindum. Viðburðurinn verður lokaður en streymt verður frá honum á vef og samfélagsmiðlum Háskólans

Í hádeginu á síðasta degi Nýsköpunarvikunnar, 7. október, verður svo sjónum beint að reiðhjólinu á viðburðinum „Að finna upp hjólið“. Þar verður fjallað á léttu nótunum um mikilvægi nýsköpunar og hugverkaréttinda út frá fortíð og framtíð reiðhjólsins og hvernig það getur stuðlað að framþróun og verðmætasköpun. Að viðburðinum standa Hugverkastofan, Lauf Forks og Auðna Tæknitorg og hann er eins og aðrir sendur út í beinni frá Hátíðasal Háskólans.

Dagskrá Nýsköpunarvikunnar í heild má finna á vef hennar.

Aðalbygging Háskóla Íslands