Skip to main content
28. apríl 2021

Háskóli Íslands aflaði hátt í fjögurra milljarða úr Horizon 2020

Háskóli Íslands aflaði hátt í fjögurra milljarða úr Horizon 2020 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn og stofnanir Háskóla Íslands hlutu samanlagt nærri fjóra milljarða króna í styrki úr Horizon 2020, rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, sem lauk formlega í fyrra. Það er langhæsta upphæð sem íslensk vísindastofnun aflaði úr áætluninni. 

„Ég vil hrósa vísindamönnum Háskóla Íslands fyrir þennan frábæra árangur í Horizon 2020. Á bak við hvert verkefni liggur gríðarleg vinna og hafa styrkirnir fengist í mikilli samkeppni á alþjóðlegum vettvangi. Verkefnin eru unnin í miklu samstarfi við vísindamenn víða í heiminum og efla vísindastarf við Háskóla Íslands svo um munar,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

Ný áætlun Evrópusambandsins á þessum sviðum tók við í ár en Horizon 2020 áætlunin náði til áranna 2014-2020.  Markmið hennar var að styrkja samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og styðja þannig við eflingu evrópskra samfélaga. Þrátt fyrir að Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu gátu íslenskir vísindamenn og frumkvöðlar engu að síður sótt um styrki úr áætluninni þar sem Ísland leggur til fjármuni inn í áætlunina. Hún skiptist í fjölmargar undiráætlanir sem studdu við rannsóknir og nýsköpun á öllum fræðasviðum og voru opnar bæði háskólum, öðrum rannsóknastofnunum hér á landi og jafnframt fyrirtækjum sem vinna að margs konar nýsköpun. 

Nú þegar áætlunin hefur runnið sitt skeið kemur í ljós að árangur Háskóla Íslands er afar glæsilegur. Skólinn kom að 59 af þeim 290 verkefnum sem hlutu styrk úr Horizon 2020 á Íslandi eða tvöfalt fleiri verkefnum en nokkur önnur íslensk stofnun. Alls hlaut skólinn 24,9 milljónir evra úr ááætluninni, jafnvirði um 3,7 milljarða króna, eða rúmlega tvöfalt meira en sú íslenska vísindastofnun sem aflaði næsthæstu fjárhæðarinnar í styrki úr áætluninni. 

Á meðal styrkja sem vísindamenn skólans fengu úr áætluninni eru tveir risastyrkir frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC) en samkeppni um þá er gríðarhörð. Samanlögð upphæð styrkjanna tveggja var á fimmta hundrað milljónir króna og runnu þeir annars vegar til þjóðarátaksins Blóðskimun til bjargar og risarannsóknarinnar Áfallasaga kvenna

Stuðningur Horizon 2020 hefur verið grundvöllur fjölmargra spennandi rannsóknar- og nýsköpunarverkefna á öllum fræðasviðum skólans. Mörg þeirra eru unnin í samstarfi við öfluga innlenda aðila, þar á meðal hið margrómaða og heimsþekkta CarbFix-verkefni, og styrkirnir hafa enn fremur lagt grunn að sífellt öflugra alþjóðlegu vísindasamstarfi skólans. Þá hefur stuðningur úr áætluninni skapað fjölmörg störf fyrir doktorsnema og nýdoktora við skólann og þannig lagt grunn að ferli stórs hóps vísindamanna framtíðarinnar.

Sem fyrr segir er Horizon 2020 áætluninni lokið og við tekur ný ætlun á sviði rannsókna og nýsköpunar í Evrópu, Horizon Europe.  

„Íslenskt samfélag lagði inn í Horizon 2020 fjármagn og mun gera slíkt hið sama í Horizon Europe. Það fjármagn skiptir gríðarlegu máli og veitir vísindamönnum aðgang að sjóðunum,“ segir Jón Atli. „Það er sérlega ánægjulegt að árangurshlutfall okkar er svo gott að mun meira fjármagn hefur skilað sér til baka. Við munum halda áfram og treysta innviðina þannig að vísindamenn Háskóla Íslands nái áfram frábærum árangri í Horizon Europe.“

Rúmlega 95 milljörðum evra, jafnvirði 14.300 milljarða króna, verður ráðstafað í styrki úr nýju áætluninni til þátttökulanda á næstu sjö árum. Sérstök áhersla verður í áætluninni á að styrkja rannsóknir sem snerta helstu áskoranir evrópskra samfélaga, svo sem á sviði heilbrigðis-, umhverfis- og orkumála. 
 

""