Háskóli Íslands aðili að sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra | Háskóli Íslands Skip to main content
14. febrúar 2020

Háskóli Íslands aðili að sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem undirrituðu sáttmála Alheimssamtaka heyrarlausra um rétt allra til táknmáls á Bessastöðum 11. febrúar, á degi íslenska táknmálsins, að viðstöddu fjölmenni. Ísland er fyrsta ríkið sem un undirritar sáttmálann.

Alheimssamtök heyrnarlausra eru frjáls félagasamtök sem eiga í opinberu samstarfi við ýmsar alþjóðlegar stofnanir eins og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO), Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og Evrópuráðið.

Samtökin gerðu sáttmálann í tilefni af alheimsþingi heyrnarlausra sumarið 2019. Í honum er m.a. kveðið á um að þeir sem undirriti sáttmálann skuldbindi sig til þess að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu, viðurkenna þarfir þeirra, mannlega reisn og mannréttindi samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum og -sáttmálum. 

Sáttmáli Alheimssamtaka heyrarlausra gerir m.a. ráð fyrir að tákmál njóti lagalegrar viðurkenningar sem opinbert tungumál hverrar þjóðar og sé lykilatriði í þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu. Þá er kveðið á um góða menntun án aðgreiningar fyrir heyrnarlaus börn, táknmálskennslu fyrir fjölskyldur heyrnarlausra barna og þá sem eiga í samskiptum við heyrnalausa, þróun tækni til að greiða fyrir þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu, stuðning við atvinnuþátttöku heyrnarlausra og valdeflingu þeirra, bæði sem einstaklinga og samtaka þeirra. 

Sáttmálinn í heild sinni

Sáttmálinn skuldbindur jafnframt ríki til að sinna rannsóknum á táknmáli í háskólum og öðrum menntastofnunum. Háskóli Íslands hefur um árabil boðið upp á nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun auk þess sem rannsóknir á sviðinu hafa aukist á síðustu misserum. Það var á grundvelli þess framlags sem rektor undirritaði sáttmálann fyrir hönd Háskólans. 

Lista yfir þá sem undirrituðu sáttmálann má sjá hér að neðan:
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari íslenska táknmálsins
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra
Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður Félags heyrnarlausra
Bryndís Guðmundsdóttir, formaður málnefndar um íslenskt táknmál, og fulltrúar málnefndarinnar
Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
Hanna H. Leifsdóttir fyrir hönd skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar 
Kristrún Guðmundsdóttir, skólastjóri Hlíðaskóla  
Guðrún Thorarensen, leikskólastjóri Sólborgar, og starfsmenn
Margrét Stefánsdóttir, formaður foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra 
Óskar H. Nielsson fulltrúi Menntamálastofnunnar

Auk þess munu Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra undirrita sáttmálann.

Hópurinn sem undirritaði sáttmálann á Bessastöðum