Skip to main content
28. október 2019

Háskólatónleikar fyrir loftslagið í Hátíðasal

""

Ljóðadagar óperudaga hefjast með Tónleikum fyrir loftslagið sem verða að þessu sinni í Hátíðasal Háskóla Íslands. Ljóð fyrir loftslagið er þema hátíðarinnar á þessu ári. Með því að tileinka hátíðina loftslagsmálum vilja aðstandendur hennar vekja á þeim athygli og hvetja til meðvitundar, samtals og hópeflis til að takast á við þetta stærsta viðfangsefni samtímans.

Eins og alltaf er enginn aðgangseyrir að Háskólatónleikunum og hefjast þeir kl. 12.30 miðvikudaginn 30. október. Öll eru velkomin.

Tvö verkanna á dagskránni eru sérstaklega samin fyrir þennan viðburð. Verkið Adamah fyrir selló og dansara eftir Catherine Mariu er í röð margra verka sem Catherine hefur samið út frá náttúrunni. 

Verkið Greta's Song eftir Gísla Jóhann Grétarsson er samið við texta úr ræðum baráttukonunnar ungu, Gretu Thunberg. 

Að tónleikum loknum bjóða Ljóðadagar óperudaga öllum í ókeypis loftslagssúpu í Norræna húsinu á meðan birgðir endast.

Á tónleikunum koma eftirtaldir listmenn fram: Catherine Maria Stankiewicz, selló, Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó, Guja Sandholt, messósópran og Tinna Ágústsdóttir dansari. 

Af öðru efni á tónleikunum má nefna Elegíu fyrir rödd, selló og píanó eftir Massenet, frumsamið spunaverk, Loft, eftir Catherine Mariu Stankiewicz þar sem Tinna Ágústsdóttir dansar, og New World eftir Björk Guðmundsdóttur. 

Um tónlistarmennina og dansarann

Catherine Maria Stankiewicz stundaði framhaldsnám í sellóleik í Bern og Kaliforníu. Hún lauk meistaranámi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi frá LHÍ 2014. Hún hefur haldið tónleika austan hafs og vestan og verið virk í ýmsum verkefnum sem kennari og flytjandi. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir leik sinn og hlotið ýmar viðurkenningar. Hún var gestakennari Crescendo Summer Institute árið 2016 og í kjölfarið varð til hópurinn Ensemble Estelliah sem flutti spunnin nútímaverk, byggð á náttúru Þingvalla, í Þingvallakirkju. Efnið var gefið út á geisladisknum Creation sumarið 2017.

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek. Eva Þyri hefur haldið fjölda einleikstónleika, komið fram sem einleikari og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka á tónlistarhátíðum hér og erlendis. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á ljóðasöng og kammertónlist og hefur komið fram með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins. Hún tók þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar á Mannsröddinni eftir Poulenc 2017 og í árslok 2018, þegar liðin var öld frá fæðingu Jórunnar Viðar, kom út geisladiskur með verkum hennar. Diskinn vann Eva Þyri með Erlu Dóru Vogler messósópran. Diskurinn hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins 2018 í flokknum klassísk tónlist og samtímatónlist.

Guja Sandholt býr í Reykjavík og Utrecht og er sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún unnið að ýmsum verkefnum í Hollandi og víðar og má þar t.d. nefna dagskrá fyrir unga og upprennandi söngvara á Operadagen Rotterdam. Nýlega söng hún hlutverk Juliu Child í Bon Appétit! við ýmis tækifæri og sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á King Harald's Saga eftir Judith Weir. Guja kemur oft fram sem einsöngvari í flutningi á ýmsum óratoríum og á undanförnum árum hefur hún komið fram á tónlistarhátíðum jafnt hér heima sem erlendis. Hún syngur einnig reglulega með hollenska útvarpskórnum og kemur oft fram á ljóðatónleikum með píanóleikaranum Heleen Vegter. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth og árin 2011-2012 starfaði hún um hríð fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans. Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum-tónlistarháskólann í Salzburg og konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Aðalkennarar hennar voru Jón Þorsteinsson og Charlotte Margiono. Guja sinnir nú fjölbreyttum verkefnum með áherslu á tónlist og samfélagsleg gildi. 

Tinna Ágústsdóttir hóf að dansa fjögurra ára í Ballettskóla Eddu Scheving. Hún stundaði einnig nám í Listdansskóla Íslands en hefur auk þess lagt stund á leiklist, söng, píanóleik, pilates o.fl. Hún er lærður hönnuður og útskrifuð í leiklist frá Kvikmyndaskóla Íslands. Tinna hefur sótt námskeið í klassískum ballett, nútímadansi, tangó o.fl. víða erlendis.
 
 

Catherine Maria Stankiewicz, selló, Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó, og Guja Sandholt, messósópran