Skip to main content
29. september 2018

Háskólar landsins fagna Jafnréttisdögum

Leikreglur karlmennskunnar, jafnrétti á bak við tjöldin, fötlun og andóf, ungt fólk og jafnrétti, kynjað vald, jafnrétti í sviðslistum og konur í hópi innflytjenda í #MeToo frásögnum á Íslandi ásamt óvæntum jafnréttisuppákomum er meðal þess sem kemur við sögu á Jafnréttisdögum í háskólum landsins dagana 1.-5. október.

Jafnréttisdagar, sem fara nú fram í tíunda sinn, tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínisma og skoða meðal annars fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. 

Dagskráin er fjölbreytt og hún sameinar hátíðarbrag og gagnrýna sýn á stöðu jafnréttismála. Viðburðir fara fram í öllum skólunum sjö og fer opnun Jafnréttisdaga fram mánudaginn 1. október í hverjum skóla fyrir sig. Innan skólanna er verkefnið unnið í samvinnu jafnréttisfulltrúa skólanna, fulltrúa stúdenta og hinna ýmsu sérfræðingar úr starfsliði skólanna. Jafnréttisdögum lýkur svo með heljarinnar tónlistarveislu föstudaginn 5. október kl. 19.30 á Kex hostel þar sem fram koma meðal annars GóGó Starr, Bríet og fleiri listamenn.

Með Jafnréttisdögum í háskólum landsins er leitast er við að skapa opna umræðu og aukinn skilning á jafnrétti ásamt því að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti.

Yfirlit yfir hina fjölbreyttu viðburði skólanna má m.a. finna á Facebook-síðu Jafnréttisdaga.

Dagskrá Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands 

logo jafnréttisdaga