Skip to main content
12. júlí 2020

Háskólanemar á sumarrannsóknavertíð

""

Sjóveikur æli í ólgandi haf,
aumingja dallurinn ætlar í kaf.
Ýsur og þorskar einblína á mig,
en vina ég elska aðeins þig. 

Svona syngja Viljálmur Vilhjálmsson og Mannakorn um sjóveikina sem fylgt hefur manninum allt frá því hann renndi fyrsta nökkvanum út á öldurnar. Nú standa yfir rannsóknir á sjóveiki við Hreyfivísindasetur Háskóla Íslands og HR en með þeim er ætlunin að öðlast betri skilning á eðli hreyfiveiki og í framhaldinu að leita leiða til að meðhöndla hana.

Hannes Petersen, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður líffærafræði við Læknadeild, er frumkvöðull í rannsóknum á hreyfiveiki hér á landi. Hann segir að rannsóknin fari fram með notkun sýndarveruleika á palli. 

„Þarna er líkt eftir ölduhreyfingum sem þátttakandi sér í gegnum sýndarveruleikagleraugu. Þetta er því nokkurskonar sjóveikihermir,“ segir hann. „Á meðan staðið er á pallinum í sýndarveruleikaumhverfinu eru framkvæmdar margskonar utanáliggjandi mælingar. Megin viðfangsefni þessarar rannsóknar er að skoða muninn á einstaklingum sem finna fyrir einkennum hreyfiveiki og svo hinna sem gera það ekki.“ 

Hannes segir að stuðst sé við gervigreind til að fá fram niðurstöður í rannsókninni. 

Þurfa nauðsynlega fleiri þátttakendur

Hannes segir að mjög sé brýnt að fá fleiri þáttakendur í rannsóknina til að hún skili tilætluðum árangri. Þátttakendurnir þurfa að vera eldri en 18 ára og segir Hannes að háskólanemar séu frábærir í verkefnið en auðvitað séu öll velkomin til þátttöku sem vilja.  Skráning fer fram í gegnum tölvupóstfangið bioenglab@ru.is

„Fólk þarf ekkert að óttast,“ segir Hannes aðspurður um hvort þátttakendur verði ekki sjálfir sjóveikir.  „Rannsóknin er samþykkt er af VSN og engra persónugreinanlegra upplýsinga er aflað – já, og hún er líka með öllu sársauka og áhættulaus.“

„Þyrlulæknir“ með sérstakan áhuga á sjóveiki

Rannsóknir Hannesar hafa vakið athygli víða um lönd en þær hafa einkum beinst að hreyfiveiki og hlutverki innra eyra mannsins í þessari meinmynd. Rannsóknir hans á hreyfiveiki skipta líklega meira máli fyrir Íslendinga en margar aðrar þjóðir því að við reiðum okkur að miklu leyti á fiskveiðar. Á sjónum getur oft verið erfitt að ná jafnvægi og standa uppréttur enda gefur oft á bátinn á Íslandsmiðum. Með rannsóknum í herminum verður hugsanlega hægt að draga úr slysum á sjó með markvissri þjálfun sjómanna.  

Hannes, sem starfaði um árabil sem læknir á þyrlum Landhelgisgæslunar, hefur margoft flogið út á miðin að sækja sjómenn sem orðið hafa fyrir slysum við störf sín.  „Sjómenn eru gjarnan með öll einkenni sjóveiki þótt þeir kasti ekki upp. Þeir hafa hraða öndun auk þess sem blóðþrýstingurinn og púlsinn er eins og hjá hreyfiveikum. Það vantar aðeins að þeir kasti upp og því telja þeir sig ekki sjóveika,“ segir Hannes. „Þeir fá svo sjóriðu þegar í land er komið sem getur ýtt undir slys þar.“

Það er því til mikils að vinna að leysa þau vandamál sem hreyfiveikin veldur. 

Hannes Petersen, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður líffærafræði við Læknadeild, er frumkvöðull í rannsóknum á hreyfiveiki hér á landi