Skip to main content
3. maí 2018

Háskólalestin heldur af stað um landið

""

Háskólalest Háskóla Íslands brunar nú af stað í áttunda sinn um landið og heimsækir fjögur sveitarfélög á næstu fjórum vikum. Fyrsti áfangastaður er Vestmannaeyjar 4. maí en þar verður nemendum í 8.-10. bekk boðið upp á fróðleg og skemmtileg námskeið sem snerta m.a. hvali, lífríkið og plast, fornleifafræði, forritun og tómstunda- og félagsmálafræði.

Háskólalestin var sett á laggirnar á aldarafmælisári Háskóla Íslands árið 2011. Hún hefur á síðustu sex árum heimsótt á fjórða tug sveitarfélaga í öllum landshlutum með lifandi og skemmtlega vísindamiðlun fyrir fólk á öllum aldri. Þá hefur lestin einnig farið um höfuðborgarsvæðið og m.a. stoppað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Háskólalestin stöðvast alla jafna í tvo daga á hverjum stað, föstudag og laugardag. Á föstudeginum taka kennarar í Háskólalestinni að sér kennslu í efri bekkjum grunnskóla á staðnum og bjóða þar upp á fjölmörg spennandi námskeið úr Háskóla unga fólksins sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi. Á laugardeginum er svo slegið upp vísindaveislu í samkomuhúsi staðarins fyrir alla fjölskylduna og þar geta gestir á öllum aldri spreytt sig á alls kyns þrautum, tækjum og tólum.

Áhöfnin í Háskólalestinni lestin „hitaði upp“ með tveimur ferðum í nýliðnum apríl. Þá var nemendum í Myllubakkaskóla í Keflavík boðið upp á valin námskeið úr Háskóla unga fólksins og sama var upp á teningnum í Patreksskóla á Patreksfirði en þangað komu líka grunnskólanemendur frá Tálknafirði og Bíldudal.

Fyrsti áfangastaður lestarinnar í maí er Vestmannaeyjar en á morgun, 4. maí, munu nemendur í 8.-10. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja sækja námskeið sem tengjast fjölmörgum fræðasviðum. Hver nemandi velur sér þrjú námskeið. Valið stendur á milli námskeiða um aðlögun hvala að lífinu í hafinu, japanskt mál og meninngu, stjörnufræði, tómstunda- og félagsmálafræði, eðlisfræði, efnafræði hversdagsins, fornleifafræði, forritun, vindmyllusmíði og áhrif plasts á lífríkið, en sérstök áhersla verður á umhverfismál í ferðum lestarinnar um landið í ár.

Háskólalestin fer víða um land í þessum mánuði sem fyrr segir en áfangastaðirnir eru:
4. maí – Vestmannaeyjar 
11. og 12. maí - Borgarnes
18. og 19. maí - Grenivík
25. og 26. maí – Egilsstaðir

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook-síðu hennar
 

Úr kennslustund í Háskólalestinni