Skip to main content
13. maí 2021

Háskólalestin heimsækir Hvammstanga

Háskólalestin heimsækir Hvammstanga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólalest Háskóla Íslands heldur af stað í sína fyrstu ferð þetta árið og mun heimsækja Hvammstanga föstudaginn 14. maí með fjölbreytt námskeið fyrir nemendur og kennara í grunnskóla bæjarins. 

Í Háskólalestinni kynnast grunnskólanemar á aldrinum 12 til 16 ára vísindum á lifandi og fjölbreyttan hátt í gegnum námskeið um allt milli himins og jarðar. Kennsla í námskeiðunum er í höndum kennara og nemenda við Háskóla Íslands, sem flestir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins. 

Háskólestin, sem hlotið hefur Vísindamiðlunarverðlaun Rannís, hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land frá því að hún var sett á laggirnar árið 2011 og hún hefur fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Eftir árshlé á ferðum lestarinnar vegna heimsfaraldursins heldur hún nú aftur af stað með sóttvarnir í fyrirrúmi, en stefnt er að því að áhöfn lestarinnar fari í COVID-19-sýnatöku fyrir hverja ferð. Þá liggur hluti hefðbundinnar dagskrár, svokölluð Vísindaveisla sem alla jafna er haldin í samkomuhúsi hvers áfangastaðar, niðri en þeim mun meiri metnaður verður lagður í námskeið í grunnskólum bæjanna sem sóttir verða heim. 

Háskólalestin heimsækir nú Hvammstanga í fyrsta sinn þar sem rúmlega 80 nemendur í 6.-10. bekk í Grunnskóla Húnaþings vestra geta valið um að sækja átta spennandi námskeið sem eru á öllu litrófi vísindanna. Þar geta þau m.a. kynnt sér bragðgóð vísindi matvælafræðinnar og eðlisfræði ljóss og lita, breytt vatni í vetni og súrefni með rafgreiningu, sett sig í spor fornleifafræðinga, kynnst leyndardómum erfðaefnis lífvera, pælt í jörðinni og áhrifum loftslagsbreytinga, smíðað vindmyllur og kynnst fjölbreyttum leikjum og æfingum í gegnum tómstunda- og félagsmálafræði.  

Þá verður Háskólalestin í fyrsta sinn með sérstakar kennarasmiðjur fyrir grunnskólakennara á hverjum áfangastað en þær hafa notið mikilla vinsælda í Vísindasmiðju háskólans í Reykjavík. Stefnt er á að gera þessa þjónustu að föstum lið í Háskólalestinni.  

Háskólalestin heimsækir tvö önnur byggðalög í mánuðinum, Strandabyggð 20.-21. maí og Fjarðabyggð 27.-28. maí. 

 

Frá Háskóla unga fólksins