Skip to main content
27. maí 2021

Háskólalestin heimsækir Fjarðabyggð í síðustu ferð ársins

Háskólalestin heimsækir Fjarðabyggð í síðustu ferð ársins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjarðabyggð verður síðasti áfangastaður Háskólalestinnar þetta árið en þar verður hún dagana 27. og 28. maí með fjölbreytt námskeið fyrir starfsfólk og nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins.

Háskólalestin hefur undanfarin tíu ár heimsótt hátt í 40 sveitarfélög um allt land með litrík og lifandi námskeið sem hvarvetna hefur verið tekið gríðarlega vel. Námskeiðin snerta vísindi og fræði af ýmsum toga og markmiðið er ætíð að vekja áhuga ungs fólks á þessum grundvallarþáttum í nútímasamfélagi með óvæntum og skemmtilegunum nálgunum. Námskeiðin eru ætluð nemendum í eldri bekkjum grunnskóla og kennsla er í höndum kennara og nemenda við Háskóla Íslands, sem flestir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins.

Áhöfn Háskólalestarinnar tekur hús nemendum og kennurum í Fjarðabyggð í Eskifjarðaskóla dagana 27. og 28. maí. Fyrri daginn taka kennarar í Eskifjarðarskóla, Grunnskóla Reyðarfjarðar, Nesskóla og Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar þátt í vinnusmiðjum um rafrásir og Microbit-forritun á vegum lestarinnar en þessar smiðjur eru nýjung í starfi Háskólalestarinnar og hafa notið mikilla vinsælda í starfi Vísindasmiðju skólans.

Seinni daginn stendur svo 140 nemendum á unglingastigi í áðurnefndum skólum til boða að sækja 11 mismunandi námsskeið um ótal hliðar vísindanna. Þar verður fengist við fornleifafræði, rafgreiningu vatns, eðlisfræði ljóss og lita, forritun og föndur, leyndardóma lífsins í erfðaefninu, loftslagsbreytingar og plánetuna Jörð, vindmyllusmíði og eldfjallafræði þar sem glænýtt hraun af Reykjanesi kemur við sögu. Þá verður verður í fyrsta sinn boðið upp á vinnusmiðju í samskiptum og samningum þar sem viðfangsefnið er réttindi barna. 

Alla jafna býður Háskólalestin einnig upp á vísindaveislu fyrir alla bæjarbúa á ferðum sínum en vegna samfélagsaðstæðna fellur sá hluti dagskrárinnar niður á þessu ári. Mikil áhersla er á sóttvarnir í lestinni í takt við tilmæli yfirvalda.

Háskólalestin hefur þegar heimsótt Hvammstanga og Strandabyggð í maímánuði en Fjarðabyggð verður síðasti áfangstaðurinn á þessu ári. 

Hægt er að fylgjast með ferðum Háskólalestarinnar á vefsíðu hennar og Facebook-síðu
 

Nemendur og kennari í Háskólalestinni