Háskólahlaup í hressandi veðri | Háskóli Íslands Skip to main content

Háskólahlaup í hressandi veðri

21. september 2018
""

Um 100 manns tóku þátt í Háskólahlaupinu 2018 í björtu en köldu veðri fimmtudaginn 20. september. Stúdentar röðuðu sér í efstu sætin í tímatöku í 7 km hlaupi. 

Hlaupið var opið bæði stúdentum og starfsmönnum og gátu þátttakendur valið milli tveggja vegalengda, 3 km og 7 km. Þriggja kílómetra hlaupaleiðin lá m.a. með fram Suðurgötu, út að Reykjavíkurflugvelli og með fram friðlandinu í Vatnsmýri en sjö kílómetra leiðin í kringum Reykjavíkurflugvöll. Á lengri leiðinni var boðið upp á tímatöku.

Eftir upphitun fyrir framan Aðalbyggingu, sem var í höndum nemenda í íþrótta- og heilsufræði á Menntavísindasviði, ræsti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hlaupara við styttuna af Sæmundi á selnum í Skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu. Hlauparar þustu af stað í heiðgulum hlaupabolum og þrátt fyrir að norðanáttin hafi látið finna vel fyrir sér á meðan á hlaupinu stóð var gleðin allsráðandi meðal hlaupara. 

Verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokki í 7 km hlaupinu. 

Í kvennaflokki kom María Birkisdóttir, BS-nemi í efnaverkfræði, fyrst í mark á tímanum 27:01. Önnur var Verena Schnurbus, doktorsnemi í viðskiptafræði, á tímanum 27:34 og í þriðja sæti var Vaka Njálsdóttir, BA-nemi í hagfræði, á tímanum 28:38.

Sigurvegari í karlaflokki var Ingvar Hjartarson, MS-nemi í umhverfis- og byggingarverkræði, á tímanum 25:49, annar varð Bjarki Freyr Rúnarsson, BS-nemi í tölvunarfræði, á  26:23 og í þriðja sæti Rögnvaldur Finnbogason, BS-nemi í viðskiptafræði, á tímanum 26:32.

Önnur úrslit í 7 km hlaupinu má nálgast á vef Háskólahlaupsins.

Þetta var í ellefta sinn sem Háskólahlaupið fór fram með núverandi fyrirkomulagi en í fyrsta sinn sem efnt er til hlaupsins að hausti.

Myndir frá Háskólahlaupinu má nálgast á myndasíðu Háskóla Íslands

Vakin er athygli á því að hlaupahópur háskólans hittist tvisvar í viku við íþróttahús skólans á Melunum. Hópurinn leggur af stað kl. 12.10 frá íþróttahúsinu á þriðjudögum og fimmtudögum. Það er tilvalið að slást í þann öfluga hóp en hann er opinn bæði starfsmönnum og stúdentum.
 

Háskólahlaupið ræst
Frá upphitun fyrir Háskólahlaupið
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ræsir hlaupara við styttuna af Sæmundi á selnum.
Þrjár efstu konur í 7 km hlaupinu með verðlaunabikara fyrir frammistöðuna.
Þrír efstu karlar í 7 km hlaupinu með verðlaunabikara fyrir frammistöðuna.