Hafísinn við Ísland í nýrri fundaröð um norðurslóðir | Háskóli Íslands Skip to main content
3. september 2019

Hafísinn við Ísland í nýrri fundaröð um norðurslóðir

""

Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands efnir til fyrirlestraraðar veturinn 2019-2020 um hinar ýmsu hliðar norðurslóðarannsókna við skólann. Fyrsta erindið verður í hádeginu fimmtudaginn 5. september en þá mun Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, fjalla um hafísinn við Ísland.

Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk og hitamet falla sem hefur mikil áhrif á bæði umhverfið og allt líf á norðurslóðum. 

Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið fyrirlestraraðarinnar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hins vegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.

Fyrsta erindi fyrirlestraraðarinnar verður fimmtudaginn 5. september kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar, en þá mun Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, fjalla um hafísinn út frá ýmsum sjónarhornum, rannsóknaráherslur tengdar honum og framtíðarhorfur. 

Hafíssagan er samofin sögu þjóðarinnar. Í miklum hafísárum gat ísinn hindrað fiskveiðar og aðflutninga sjóleiðis, haft slæm áhrif á landbúnað og þar með afkomu þjóðarinnar. Ítarlegar sögulegar heimildir eru til um hafísinn og geta þær m.a. varpað ljósi á veðurfar. Nú á tímum hentar fjarkönnun einkar vel til að rannsaka myndun, rek og útbreiðslu hafíss og gervitunglavöktun hefur verið stunduð um árabil, m.a. til að auka öryggi sjófarenda. Miklar breytingar hafa orðið á hafísþekjunni á norðurslóðum og eru þær vissulega áhyggjuefni á tímum hnattrænna breytinga.

Fundarstjóri: Margrét Cela, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur um norðurslóðir

Ingibjörg Jónsdóttir, sem stígur fyrst á stokk í nýrri fundaröð Rannsóknarseturs um norðurslóðir, stundaði nám við Háskóla Íslands og Cambridge-háskóla í Bretlandi, en aflaði auk þess hafísgagna í Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum. Hún hefur stundað hafísrannsóknir um árabil og farið í nokkra hafísleiðangra um Grænlandshaf og Norður-Íshafið.

Dagskrá fundaraðar haustmisseri 2019

5. september
Staður: Þjóðarbókhlaða, fyrirlestrarsalur
Kl.12-13
Hafísinn við Ísland: Áhrif hans fyrr á tímum, rannsóknir og framtíðarhorfur
Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Jarðvísindadeild.

1. október
Staður: Þjóðarbókhlaða, fyrirlestrarsalur
kl: 12-13
Titill erindis tilkynntur síðar
Björn Karlsson, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

25. október
Staður: Þjóðarbókhlaða, fyrirlestrarsalur
Kl.12-13
Söknuðurinn eftir Grænlandi. Íslensk-grænlensk samskipti á 19. og 20. öld
Sumarliði Ísleifsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild.

7. nóvember 
Staður: Þjóðarbókhlaða, fyrirlestrarsalur
Kl.12-13
Kerfislæg áhætta tengd olíuslysum á hafi úti og möguleg áhrif á Norðurslóðum
Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild.

21.nóvember
Staður: Þjóðarbókhlaða, fyrirlestrarsalur
Kl.12-13 
Norðurslóðir á ferðinni: Álitamál, áskoranir og möguleikar ferðaþjónustu
Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í land- og ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild.

Hafís