Skip to main content
4. september 2018

Hægt að læra tungumál sem hluta af öðru námi

„Háskóli Íslands býður öllum stúdentum við skólann að bæta samkeppnisstöðu sína með því að stunda nám í fjölmörgum erlendum tungumálum sér að kostnaðarlausu. Nemendur geta tekið námskeið til eininga í öllum tungumálagreinum við skólann og yfirleitt fengið þau metin inn í námsleiðir sem þeir stunda við skólann. Nemendur geta einnig sótt námskeið í Tungumálamiðstöðinni við Háskólann sem eru sniðin að hverjum og einum nemenda, og þannig hafið sjálfstýrt tungumálanám.“ Þetta segir Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku við Háskóla Íslands, en þýskan er eitt þrettán erlendra tungumála sem nú eru kennd við skólann. Til viðbótar er hægt að læra arabísku, dönsku, ensku, frönsku, grísku, ítölsku, japönsku, kínversku, latínu, rússnesku, spænsku og sænsku. 

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræði, tekur í svipaðan streng og Oddný og segir að með alþjóðavæðingunni hafi nemendur öðlast tækifæri til að starfa á ólíkum menningarsvæðum og því sé kunnátta í tungumálum afar mikilvæg. „Með kunnáttu í ólíkum tungumálum öðlast nemendur skilning á ólíkum menningarsvæðum og auka menningarlæsi sitt. Þá veita tungumál ótvírætt tækifæri í atvinnulífinu, rannsóknum, listum, við lestur bókmennta og upplifun kvikmynda og auðvitað á ferðalögum eins og allir vita,“ segir Birna.

Mikilvægi tungumála gríðarlegt
Þær Birna og Oddný eru báðar á því að mikilvægi tungumála sé miklu meira en unnt sé að sjá í fyrstu en kunnátta í tungumálum auki t.d. mjög möguleika fólks á að fá góða atvinnu. „Tungumálið er ekki bara notað til að ræða við annað fólk heldur er það líka lykill að því til að skilja aðra menningarheima,“ segir Oddný. „Og nú hefur komið í ljós að færni í fleiri en einu tungumáli hefur jákvæð áhrif á starfsemi heilans,“ bætir Birna við.

Kunnátta í ensku er útbreidd á Íslandi og segir Birna að margir kunni ensku vel þótt færri geri sér grein fyrir því að um 60% nemenda í Háskóla Íslands eigi í raun í erfiðleikum með skilja enska texta til fullnustu. „Umræðan snýst hins vegar núna um það hvernig færni í öðrum tungumálum eykur möguleika á atvinnu bæði hér á Íslandi og erlendis.“

Tungumál auðga skiptinámið
Skiptinám er einstakt tækifæri fyrir nemendur við Háskóla Íslands til að stunda hluta af námi sínu erlendis við einhvern af yfir fjögur hundruð samstarfsskólum Háskólans um allan heim. Nemendur geta að auki fengið skiptinámið metið inn í námsferil sinn við Háskóla Íslands svo dvölin hafi ekki áhrif á lengd námsins. „Ef þú ætlar í Erasmus-skiptinám færðu meira út úr dvölinni erlendis með góðum undirbúningi, t.d. með því að læra eitthvað í tungumálinu áður en þú heldur utan,“ segir Oddný.   

Skiptinám getur gert nemendum kleift að stunda nám við fremstu háskóla heims, þar sem annars gæti verið afar erfitt að fá inngöngu, og veitir tækifæri á fjölbreyttara námsframboði, ekki síst á framhaldsstigi. Auk þess getur skiptinám opnað dyr fyrir nemendur sem hafa áhuga á að fara síðar í áframhaldandi nám við sama skóla eða í sama landi. Þá sýna niðurstöður rannsókna fram á jákvæð áhrif skiptináms á atvinnumöguleika ungs fólks. „Ef þú ætlar í framhaldsnám erlendis færðu líka miklu meira út úr náminu og dvölinni ef þú hefur lært tungumálið þar sem framhaldsnámið er tekið“, bætir Oddný við.

Þær stallsystur benda á það að til 10. september sé hægt að skrá sig í hvaða tungumálanámskeið sem er, algerlega óháð því hvaða námsleið viðkomandi nemandi hefur valið sér við skólann. „Svo er líka alveg frábær aðstaða í Háskóla Íslands til að læra tungumál en öll kennsla fer fram í afar fallegu umhverfi í Veröld - húsi Vigdísar,“ segir Birna að lokum. 

 

nemendur í veröld
Birna Arnbjörnsdóttir og Oddný Sverrisdóttir