Grunnskólakrakkar í háskólarannsókn á Laugarvatni | Háskóli Íslands Skip to main content
29. október 2019

Grunnskólakrakkar í háskólarannsókn á Laugarvatni

Rannsóknir á fuglum eru mjög mikilvægar vegna þess að þær endurspegla ástand vistkerfa auk þess að gefa skarpa mynd af breytingum í lífríkinu vegna sviptinga í loftslagi. Nú er hafið mjög spennandi verkefni við Bláskógaskóla á Laugarvatni þar sem unglingastig skólans vinnur með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi að því að meta áhrif árferðis og loftslagsbreytinga á fuglastofna í nágrenni við vatnið. 

„Til að mæla þessar breytingar fara krakkarnir út vikulega og telja fugla í ýmsum búsvæðum á og við Laugarvatn,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, sem er forstöðumaður rannsóknasetursins en hann leiðir verkefnið ásamt fuglafræðingnum Böðvari Þórissyni, sem einnig starfar við rannsóknasetrið, og grunnskólakennurunum Hallberu Gunnarsdóttur og Guðna Sighvatssyni við Bláskógaskóla.

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til gagnkvæms samstarfs við fyrri skólastig og þetta verkefni er svo sannarlega að uppfylla það markmið með mjög frumlegum hætti. Í verkefninu styðja grunnskólanemar nefnilega við mikilvægar rannsóknir á háskólastigi og raunar gott betur því þeir taka beinan þátt í þeim. 

Tómas Grétar segir að talningarnar nýtist á fjölbreyttan hátt í kennslunni en fuglatalningarnar eru hluti af sérhæfðu útinámi við Bláskógaskóla á Laugarvatni. „Auk þess að byggja upp þekkingu á náttúrufræði er hægt að nota upplýsingarnar sem fást í verkefninu í fleiri fögum til dæmis landafræði og stærðfræði.“ 

„Til að mæla þessar breytingar fara krakkarnir út vikulega og telja fugla í ýmsum búsvæðum á og við Laugarvatn,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, sem er forstöðumaður rannsóknasetursins en hann leiðir verkefnið ásamtfuglafræðingnum Böðvari Þórissyni, sem einnig starfar við rannsóknasetrið, og grunnskólakennurunum Hallberu Gunnarsdóttur og Guðna Sighvatssyni við Bláskógaskóla. MYND/Kristinn Ingvarsson

Miklar sviptingar í lífríki vegna loftslagsbreytinga

Að Tómasar sögn hófst verkefnið í fyrra og þótti gefa það góða raun að því er haldið áfram núna í haust af miklum krafti. 

„Ef reglubundnum mælingum af þessu tagi er haldið til streitu um lengri tíma má meta breytingar á komutíma farfugla, á stofnstærðum og á samsetningu fuglafánunnar. Hnattrænar breytingar á náttúrufari eru settar saman úr staðbundnum atburðum og ferlum og því leggja mælingar sem þessar til mikilvægar upplýsingar sem nýtast til náttúruvöktunar.“

Tómas Grétar segir að miklar breytingar séu að verða á lífríki jarðar vegna loftslagsbreytinga og eyðingar búsvæða. „Breytingar á komutíma farfugla að vori eru afar augljós merki um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar. Fjöldi rannsókna í Evrópu og Ameríku, m.a. á Íslandi, hefur sýnt að farfuglar koma æ fyrr á varpstöðvar með hlýnandi veðri. Þetta á einkum við um skammdræga farfugla en síður um langdræga. Þá benda rannsóknir til að breytingar á fartíma séu tengdar stofnstærðum á þann hátt að það fækki síður í fuglastofnum sem geta frekar aðlagað fartíma sinn að breyttum skilyrðum . Fuglar eru áberandi og auðþekktir miðað við flesta hópa dýra  og eru því ákjósanlegur mælikvarði og viðfangsefni rannsókna. Þá eru fuglar gjarnan ofarlega í fæðukeðjum,“ segir Tómas,  en fuglarannsóknir gefa þannig vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum. 

Krakkarnir mjög áhugasamir 

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til að auka áhuga nemenda á öllum skólastigum á vísindum og fræðum og hér er sannarlega unnið í þeim anda. Nemendur grunnskólans á Laugarvatni hafa verið mjög áhugasamir um verkefnið enda er rannsóknin sjálf spennandi og fuglarnir heilla krakkana eins og reyndar flest fólk.  Mjög margir njóta þess að horfa á fugla og tengja þá við árstíðir, komu vorsins þegar farfuglar þyrpast til landsins, og haustsins þegar þeir fljúga aftur utan. „Fuglar eiga undir högg að sækja eins og fleiri þættir lífríkisins. Aukin þekking sem fæst með rannsóknum er besta leiðin til að stemma stigu við slíkri hnignun. Það er því ánægjulegt að geta sameinað ánægjulega útiveru, nám og mikilvægar rannsóknir á náttúrunni í verkefninu, þvert á skólastig,“ segir Tómas Grétar.  

Nemendur við fuglaskoðun