Skip to main content
29. október 2019

Gróðurveggir gegn loftslagsbreytingum á norðurslóðum

""

Hugmynd um gróðurveggi sem byggjast á svokölluðum samræktunaraðferðum varð hlutskörpust í Arctic Innovation Lab, samkeppni um sjálfbærar lausnir meðal framhaldsnema sem efnt var til á ráðstefnunni Hringborð norðurslóða (Arctic Circle Assembly) á dögunum. Hugmyndasmiðurinn, Kevin Dillman, lauk meistaranámi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands í fyrra en þetta var annað árið í röð sem fulltrúi Háskólans sigrar í keppninni. 

Arctic Innovation Lab er skipulögð innan Arctic Circle á vegum Harvard Kennedy School of Government í Bandaríkjunum, Háskóla Íslands, Orkuskólans innan Háskólans í Reykjavík, Grænlandsháskóla og Fletcher School við Tufts-háskóla í Bandaríkjunum og hefur verið haldin á hverju ári frá 2014. Markmið samkeppninnar er hvetja ungt vísindafólk til að ræða þær öru breytingar sem eru að verða á norðurslóðum, áhrif þeirra á jörðina í heild og að koma með sjálfbærar lausnir við áskorunum á svæðinu. Alls tóku 15 nemendur víða að úr heiminum þátt í Arctic Innovation Lab að þessu sinni og fékk hver og einn fimm mínútur til að kynna hugmynd sína. Að loknum kynningum völdu áhorfendur og tveir dómarar bestu hugmyndina og varð hugmynd Kevins hlutskörpust. 

Kevin nýtti mínúturnar fimm til þess að kynna hugmyndina „Win-win Decentralised Urban Farming” sem er nátengd sprotafyrirtækinu Geogardens sem hann stofnaði ásamt samstarfsfólki. „Hugmyndin er að nýta svokallaðar samræktunaraðferðir, nánar tiltekið vatnsræktun (e. hydroponics) þar sem plöntur eru ræktaðar án jarðvegs, til þess að koma upp gróður- eða ræktunarveggjum t.d. á skrifstofum, í matvöruverslunum eða samkomuhúsum. Nýta mætti heita vatnið sem þegar er nýtt til húshitunar á norðurslóðum til að rækta t.d. kál, spínat og ýmsar kryddjurtir og auka um leið loftgæði í þeim byggingum sem ræktunin fer fram. Með því að koma slíkum kerfum upp í borgum og bæjum á norðurslóðum væri ekki aðeins hægt að tryggja fólki matvæli heldur einnig draga úr fátækt og skapa ný störf,“ segir Kevin. 

Hugmyndin kviknaði þegar Kevin var að skoða möguleika á að opna gróðurhús á Íslandi en hann rak sig á hversu kostnaðarsamt  væri að koma slíku upp. „Ég fór í framhaldinu að velta fyrir mér hvort hægt væri að rækta plöntur í kjöllurum og vöruhúsum og jafnvel innanhúss í venjulegum byggingum. Ef það væri hægt, hvort hægt væri að svara um leið eftirspurn eftir matvælum,“ útskýrir Kevin. 

Stuðlað að sjálfbærari matvælaframleiðslu

Hann bendir enn fremur á að með þessu megi jafnframt stuðla að sjálfbærari matvælaframleiðslu. „Áætlað er að vatnsræktun (e. hydroponics) geti minnkað vatnsnotkun í landbúnaði um 70-90% og með lóðréttri ræktun á veggjum má enn fremur minnka umtalsvert landnotkun í landbúnaði og þannig draga úr kolfefnisspori greinarinnar og skógareyðingu. Hugmynd okkar í Geogardens myndi einnig draga úr kolefnisspori tengdu innflutningi á matvælum til Íslands,“ segir Kevin enn fremur.

Með því að framleiða grænmeti og kryddjurtir og fleira hér á landi sé einnig hægt að stuðla að bættri heilsu og velferð íbúa á norðurslóðum með því stytta tímann sem líður frá því að varan er tilbúin og þar til hún berst til neytenda. „Áætlað er að meirihluti matar tapi á bilinu 15-55% af næringargildi sínu á leið til neytanda og hugmynd okkar í Geogardens er að draga úr þessu tapi með því að koma vörunum fyrr til þeirra. Með því að hafa gróðurveggi í fyrirtækjum, stofnunum og víðar getum auk þess stuðlað að aukinni vellíðan fólks en sýnt hefur verið fram á að græn svæði auki virkni fólks, dragi úr veikindadögum og auki almenna hamingju,“ segir Kevin og vísar þar m.a. til nýrra rannsókna á vegum Harvard-háskóla. 

Hann bendir enn fremur á að hugmyndin á bak við Geogardens styðji einnig við framgang nokkurra af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, m.a. þeirra sem snúa að minni vatnsnotkun við matvælaframleiðslu, ábyrgri neyslu og framleiðslu, verndun lífs á landi, útrýmingu hungurs og bættri heilsu og vellíðan.

Frumkvöðullinn Kevin Dillman kynnir hugmynd sína um gróðurveggi á norðurslóðum í Arctic Innovation Lab á Arctic Circle á dögunum.

Tilraunaveggir á tveimur stöðum

Kevin segist hafa ákveðið að taka þátt í Arctic Innovation Lab eftir ábendingu frá kennurum í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands en hann hafi talið samkeppnina góðan vettvang til þess að koma verkefninu á framfæri. „Ég hef nú þegar sett upp tvo tilraunagróðurveggi í Granda Mathöll og Húsi ferðaklasans og við vinnum nú að því að safna fé til að halda áfram þróun verkefnisins,“ segir Kevin enn fremur spurður um framgang þess.

Sem fyrr segir lauk Kevin meistaraprófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands og aðspurður hvernig námið hafi nýst honum í verkefninu segist hann hafa með því öðlast skýrari sýn á þær áskoranir sem blasa við á norðurslóðum og þau vandamál sem standi sjálfbærri matvælaframleiðslu á svæðinu fyrir þrifum. „Námið opnaði augu mín fyrir mögulegum lausnum í stað þess að horfa eingöngu upp á loftlagsbreytingar, sem margir vilja vinna gegn en finnst þau ekkert geta gert. Menntun mín hefur auk þess hjálpað mér að skilja hvernig verkefnið hefur áhrif á sjálfbærni og gert mér kleift að setja það fram þannig að aðrir átti sig á mikilvægi þess,” segir hann að endingu. 

Við þetta má bæta að Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði, tók einnig þátt í Arctic Innovation Lab og ræddi í erindi sínu um mikilvægi þess að grafa djúpt þegar kemur að rannsóknum á norðurslóðum. Hún undirstrikaði einnig mikilvægi þess að tengja saman unga rannsakendur á norðurslóðum og stofnaði í kjölfar samkeppninnar óformleg samtök fyrir unga rannsakendur um norðurslóðir á Íslandi.

Kevin Dillman