Skip to main content
13. október 2016

Græn skref stigin í Háskóla Íslands

Græn skref stigin í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í Háskóla Íslands er verið að innleiða svokölluð Græn skref í ríkisrekstri en margar opinberar stofnanir hafa valið að stíga þau til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í daglegum rekstri. Verkefnið er í takti við nýja stefnu háskólans 2016-2021 þar sem fram kemur að skólinn muni taka upp umhverfisstjórnunarkerfi. Grænu skrefin eru góður undirbúningur fyrir það. Verkefnið er unnið að frumkvæði sjálfbærni- og umhverfisnefndar skólans með stuðningi rektors.

Verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Það felur í sér mikinn ávinning og mun gera starf Háskólans markvissara í sjálfbærni- og umhverfismálum. Skrefin hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi skólans og draga úr rekstrarkostnaði.

Grænu skrefin eru fimm og í hverju þeirra er unnið með sex flokka með það að markmiði að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Þessir flokkar eru:

  • innkaup
  • miðlun og stjórnun
  • fundir og viðburðir
  • flokkun og minni sóun
  • rafmagn og húshitun
  • samgöngur

Sólrún Sigurðardóttir og Jón Sigurður Pétursson, verkefnastjórar á framkvæmda- og tæknisviði halda utan um verkefnið. Þar sem Háskólinn er stór stofnun leita þær eftir samstarfsaðilum, „grænum sendiherrum“, innan allra fræðasviða og deilda, bæði meðal starfsfólks og nemenda. Hlutverk þeirra verður að aðstoða við eftirfylgni, hvatningu og fleira til að tryggja að Háskólinn nái að stíga grænu skrefin.

Sólrún og Jón Sigurður hvetja alla sem starfa innan skólans að kynna sér Grænu skrefin sem fyrst og skoða hvað hver og einn getur lagt af mörkum til að styðja við þau.

Nánari upplýsingar um sjálfbærni- og umhverfismál í Háskóla Íslands má finna á Facebook og vefgátt sjálfbærni- og umhverfismála á vef Háskólans.

Merki grænna skrefa