Gos í Öræfajökli gæti haft mikil áhrif á flugumferð | Háskóli Íslands Skip to main content

Gos í Öræfajökli gæti haft mikil áhrif á flugumferð

2. febrúar 2018
""

Sviðsmyndir rannsóknarhóps við Háskóla Íslands um áhrif stórs eldgoss á Íslandi á flugumferð í Evrópu leiða í ljós að slíkt gos gæti lamað flugsamgöngur í álfunni og víðar svo dögum skiptir. Hópurinn kynnti niðurstöður sínar fyrir hagsmunaaðilum á sviði flugrekstrar á dögunum. 

Að rannsókninni koma þau Uta Reichardt, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, og Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, auk Jeroens Aerts, prófessors og forstöðumanns umhverfisrannsóknarstofnunar Vrije-háskóla í  Amsterdam í Hollandi. Rannsóknin er ein af tíu dæmum um náttúruhamfarir sem tekin eru í risavöxnu evrópsku rannsóknarverkefni sem nefnist ENHANCE. 

Kveikjan að verkefninu var eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 sem hafði mikil áhrif á flugumferð í Evrópu og víðar en alls féllu um 100 þúsund flugferðir niður á meðan flugbann var í gildi. Viðbrögð almannavarna, eftirlitsaðila, flugrekenda og fleiri stofnana við gosinu leiddu vísindamennina sem koma að verkefninu í rannsóknaleiðangur þar sem leitað hefur verið svara við því hvernig viðbragðsáætlanir hafa nú þegar verið bættar, hvernig þær gætu tekist á við enn stærri atburði en árið 2010 og hvernig gera megi viðbrögð við eldgosum og öskufalli enn markvissari í framtíðinni og draga þannig úr áhrifum þessara atburða á þjóðfélög.

Teiknaði upp sviðsmyndir stórra öskugosa

Í rannsóknarverkefninu hefur áhersla verið lögð á að teikna upp og kanna sviðsmyndir um hugsanleg áhrif stórra öskugosa á Íslandi á flugumferð og nýta slíkar sviðsmyndir til að stuðla að bættum samskiptum vísindamanna, löggjafa, eftirlitsaðila og flugrekenda.  Það eflir skilning þeirra á mögulegum atburðum og verklagi hvers annars og þar með hæfni þeirra til að takast á við áhættu, taka upplýstar ákvarðanir og draga úr þeim áhrifum sem slíkum eldgosum fylgja.

Uta Reichardt hefur í doktorsverkefni sínu unnið með tvær sviðsmyndir vegna eldgosa hér á landi en í báðum tilvikum er gert ráð fyrir sams konar veðurskilyrðum og í gosinu í Eyjafjallajökli 2010, þ.e. norðlægum áttum þar sem askan bærist til Evrópu.

Annars vegar er um að ræða sviðsmynd um gos í Eyjafjallajökli sem stæði í 24 vikur í stað sex vikna árið 2010. Slíkt er ekki óhugsandi þar sem gos í jöklinum á 19. öld stóð í 14 mánuði. Ekki var gert ráð fyrir stöðugu gosi heldur síendurteknum öskugosum sem kalla mögulega á endurteknar takmarkanir á flugumferð nokkra daga í senn. Samkvæmt sviðsmyndinni myndi um 50% af flugumferð í Evrópu vera felld niður vegna slíks goss en til samanburðar var lokað fyrir um 80% flugumferðar árið 2010.

Seinni sviðsmyndin gerir ráð fyrir gríðaröflugu sprengigosi í Öræfajökli sem væri svipað gosinu sem varð 1362. Í líkankeyrslu sviðsmyndarinnar var aðeins unnið með sólarhrings gos en slíkt gos gæti staðið yfir í 2-3 vikur. Magn og þéttleiki ösku yrði tífalt meiri en í gosinu í Eyjafjallajökli 2010. Slíkt gos myndi hafa gríðarmikil áhrif á flugumferð og í raun stöðva alla flugumferð í 2-5 daga eftir að askan bærist til Evrópu. Jafnframt væri möguleiki á því að askan bærist þvert yfir Atlantshafið sem þýddi enn frekari röskun á flugumferð. Stæði gosið í lengri tíma yrðu áhrifin enn meiri. 

Samvinna ólíkra aðila mikilvæg
Í doktorsverkefni sínu hefur Uta einnig skoðað hvaða breytingar hafa orðið á viðbragðsáætlunum bæði flugrekenda, flugumferðarstjórna og framleiðanda þotuhreyfla í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010. Þessum aðilum var boðið að taka þátt í vinnustofu hér á landi þar sem farið var yfir sviðsmyndirnar. Vinnustofuna sóttu fulltrúar EUROCONTROL (Evrópustofun um flugumferðarstjórn og flugöryggi), Alþjóðasambands flugfélaga (IATA), Icelandair, Samgöngustofu, ISAVIA, Veðurstofu Íslands, innanríkisráðuneytisins og þotuhreyflaframleiðandans Rolls Royce. 

Uta bendir á að ekki sé nóg að þessir aðilar komi saman og ræði möguleg samhæfð viðbrögð við stóru öskugosi  heldur þurfi einnig að kalla að borðinu fulltrúa annarra flutningamáta, á landi og sjó. Nauðsynlegt sé að búa stjórnendur annarra samgöngumáta undir að taka við flutningum á fólki og vörum ef flugumferð stöðvast.

Auk styrkja frá ENHANCE-verkefninu hefur Uta notið styrkja frá NORDRESS-setrinu við Háskóla Íslands og Rannsóknarsjóði ISAVIA við Háskóla Íslands. Hún er langt komin í doktorsnáminu og hyggst ljúka því með vörn á vormánuðum 2018.
 

Uta Reichardt, Guðmundur Freyr Úlfarsson og Guðrún Pétursdóttir

Netspjall