Skip to main content
16. október 2018

Göngum saman styrkir fimm nemendur HÍ

""

Fimm framhaldsnemar við Háskóla Íslands tóku á dögunum við veglegum rannsóknarstyrkjum frá styrktarfélaginu Göngum saman sem nýtast munu til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Úthlutað var 10 milljónum króna að þessu sinni en frá stofnun félagsins árið 2007 hefur Göngum saman veitt alls rúmar 90 milljónir króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og stór hluti þess fjár hefur komið í hlut starfsmanna og nemenda við Háskóla Íslands.

Sjö nemendur og vísindamenn fengu styrk að þessu sinni: 

  • Anna Karen Sigurðardóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 1,5 milljónir króna til verkefnisins „Tjáning, stjórnun og virkni peroxidasins í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli“.
  • Arsalan Amirfallah, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut eina milljón króna til verkefnisins „Role of autophagy gene VMP1 in breast tumorigenesis and resistance of HER2 positive tumors to therapy“.
  • Bylgja Hilmarsdóttir,  náttúrufræðingur á meinafræðideild Landspítala, hlaut eina milljón króna til verkefnisins „Hlutverk PLD2 í brjóstakrabbameinum“.
  • Hildur Knútsdóttir, nýdoktor við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum, hlaut 1,5 milljónir króna til verkefnisins „Meinvarpamyndun í brjóstakrabbameini rannsakað með líkönum (rannsóknarstofu- og tölvulíkön): tengsl milli arfgerðar og svipgerðar“.
  • Marta S. Alexdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Áhrif próteinanna BMP og lysyl oxidasa í æðakerfi brjóstakrabbameina“.
  • Ólöf Gerður Ísberg, doktorsnemi í lyfjavísindum við Háskóla Íslands, hlaut eina milljón króna til verkefnisins „Massagreining smásameinda í brjóstakrabbameinsvef“.
  • Snædís Ragnarsdóttir, meistaranemi lífeindafræði við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Áhrif FANCD2 á sjúkdómshorfur og meðferð brjóstakrabbameina“.

Um Göngum saman
Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin í ár byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, s.s. Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins. Frá stofnun félagsins hefur ríflega 90 milljónum verið úthlutað til íslenskra rannsóknaraðila á sviði brjóstakrabbameins. 

Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, Snædís Ragnarsdóttir, Ólöf Gerður Ísberg, Marta S. Alexdóttir, Hildur Knútsdóttir, Kolka Jónasdóttir f.h. móður sinnar, Bylgju Hilmarsdóttur, Arsalan Amirfallah og Anna Karen Sigurðardóttir