Skip to main content
28. ágúst 2018

Gönguferð á slóðir sveppa í Heiðmörk um helgina

Sveppir eru sælgæti en það er betra að þekkja þá góðu frá þeim vondu og eitruðu! Á laugardaginn kemur, þann 1. september kl. 10, heldur Háskóli Íslands ásamt Ferðafélagi Íslands í árvissa göngu þar sem sveppum er safnað í Heiðmörkinni. Gangan hefur unnið sér fastan sess í tilverunni því þarna hafa fjölskyldur notið fegurðar Heiðmerkur og fengið fróðleik í fararanesti um íslenska sveppi. Það skiptir nefnilega miklu máli að fá það alveg á hreint hvaða sveppi má tína og hverja alls ekki.  

Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands leiðir gönguna ásamt fjölda nemenda sem allir hafa sérþekkingu á íslenskum sveppum. 

Það getur reynst flókið að finna æta sveppi því um tvö þúsund sjálfstæðar tegundir sveppa og sjö hundruð tegundir fléttna vaxa á Íslandi.  Fléttur eru sambýli svepps og þörunga. Af allri þessari fungu eru aðeins um 30 tegundir sveppa á Íslandi ætar og bragðast vel.  Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega. Sumar flétturnar eru einnig ætar, þar á meðal fjallagrös og hreindýramosi.

Hægt er að finna æta sveppi um land allt og því má reikna með að vel beri í veiði á laugardag í Heiðmörkinni sem er kjörlendi fyrir sveppi. Bestu sveppasvæðin landsins eru á Vesturlandi, í Borgarfirði og á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum en þar má finna kóngssveppi og kantarellur.

Fjóluhelma, iltrektla, kúalubbi, grænhnefla, fótgíma og mjúkfísi 
Í ferðinni í Heiðmörk á laugardag verður sveppum ekki bara safnað því fróðleikur um verkun og eldun fylgir með. Sveppir þrífast alla jafna nálægt trjágróðri. Nöfn á sveppum á íslensku eru mörg hver algerlega mögnuð en á laugardag er líklegast að göngufólk finni gráserk, grávönd, anístrektlu, glanstrefil, gulkornhettu, slímgump, guleggjahelmu, furusvepp, fjóluhelmu, iltrektlu, kúalubba, grænhneflu, fótgímu og mjúkfísi en þeir dafna allir nærri trjám eins og í Heiðmörk. Svo má kannski finna gulltoppu, sem er eitruð, lerkisveppi, gullbrodda og sortukúlu. Framangreindar tegundir eru ekki allar ætar en þessar tegundir eru gómsætar: Furusveppur, kúalubbi, lerkisveppur, sortukúla, fótgíma, mjúkfísi og slímgumpur. 

Við matreiðslu sveppa er allra mikilvægast að fólki viti að það hafi æta tegund á milli handanna. Næstmikilvægast er að elda eða steikja sveppi vel því sumir geta valdið magaverkjum ef þeir eru ekki eldaðir nógu lengi. 

Í ferðinni á laugardag verður hist við bílastæðið við Rauðhóla kl. 10 og þaðan ekið lengra inn í Heiðmörkina. Gera má ráð fyrir að ferðin í heild sinni taki um tvær til þrjár klukkustundir. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát fyrir sveppina.
 
Samstarf  Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ hefur staðið frá aldarafmæli skólans árið 2011 og ferðirnar notið mikilla vinsælda. Í ferðunum blandast reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskóla Íslands saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðin á laugardaginn er farinn í samvinnu við Ferðafélaga barnanna sem er sproti innan Ferðafélags Íslands. 

Greining á ætum sveppum

Matreiðsla á ætum sveppum

Strákur með svepp
Gísli Már Gíslason og gestur í sveppagöngu 2016
Gestur í sveppagöngu