Skip to main content
8. apríl 2019

Góður árangur af notkun sérhæfðrar lungnavélar á Landspítalanum 

Góður árangur hefur náðst á Íslandi með notkun svokallaðrar ECMO-dælu sem aðeins er nýtt í meðferð sjúklinga þegar öll önnur úrræði hafa verið reynd. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar íslenskra vísindamanna sem sagt er frá í vísindaritinu Acta Anaesthesiologica Scandinavicae.

ECMO-dæla (e. extracorporeal membraneous oxygenation) er hjarta- og lungnavél sem búin er bæði gervilunga og hjartadælu og er beitt þegar sjúklingar er komnir með endastigs hjarta- eða öndunarfærabilun. Þannig getur ECMO-dæla nýst í meðferð sjúklinga með lífshættulega öndunarbilun, t.d. eftir svæsna lungnabólgu, alvarlega áverka eða nær drukknun. Meðferðinni er aðeins beitt þegar öll önnur meðferðarúrræði hafa verið reynd og þá í lífsbjargandi tilgangi. Hægt er að beita meðferðinni svo vikum skiptir hjá sjúklingum þar sem starfsemi hjarta og/eða lungna er það skert að meðferð með öndunarvél og æðahvetjandi lyfjum dugar ekki til. 

Rannsóknin sem sagt er frá í Acta Anaesthesiologica Scandinavicae tók aðeins til þeirra sjúklinga sem fengu meðferðina við öndunarbilun (VV-ECMO), en þá dælir hjartað af sjálfsdáðum. Í ljós kom að rúmlega helmingur sjúklinga lifði meðferðina af sem þykir góður árangur í alþjóðlegum samanburði og er sambærilegur við stærri sjúkrahús erlendis. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður, ekki síst í ljósi þess að án ECMO-dælunnar hefði sjúklingunum vart verið hugað líf.

Um var að ræða 17 sjúklinga, 9 karla og 8 konur, sem meðhöndlaðir voru frá 1991 til loka árs 2016. Ástæður meðferðar voru í 16 tilfellum brátt andnauðarheilkenni (ARDS), en þeirra á meðal voru þrír sjúklingar sem fengið höfðu svæsna lungnabólgu í kjölfar svínainflúensu. Alls lifðu 11 sjúklingar af meðferðina (65%), þar af allir þrír sem fengu svínainflúensu, en 10 sjúklingar (59%) lifðu fram að útskrift af spítala og voru þeir allir á lífi í lok árs 2017.

Rannsóknin og niðurstöður hennar eru mikilvægar í ljósi smæðar Landspítala –  háskólasjúkrahúss og fjarlægðar til stærri sjúkrahúsa sem bjóða upp á sömu meðferð. Sjúklingarnir sem þurfa á þessari bráðu meðferð að halda eru svo alvarlega veikir að mikil vandkvæði fylgja því að flytja þá erlendis til ECMO-meðferðar. Því er ánægjulegt að hægt sé að veita þessa meðferð hér á landi með góðum árangri.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Inga Lára Ingvarsdóttir, sérnámslæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, en Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni. Aðrir höfundar greinarinnar eru læknarnir Halla Viðarsdóttir, Martin Ingi Sigurðsson prófessor, Arnar Geirsson, Gunnar Mýrdal og Felix Valsson auk Líneyjar Símonardóttur, sérfræðings á hjarta- og lungnavél.
 

Tómas Guðbjartsson og Inga Lára Ingvarsdóttir