Skip to main content
12. maí 2021

Gerir allar bækur sínar aðgengilegar á raf- og hljóðbókarformi

Gerir allar bækur sínar aðgengilegar á raf- og hljóðbókarformi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Trausti Valsson, prófessor emeritus í skipulagsfræðum við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, hefur gefið út allar bækur sínar á raf- og hljóðbókarformi og gert þær flestar aðgengilegar ókeypis á heimasíðu sinni. Hann hefur jafnframt tekið saman hnitmiðað yfirlit yfir efnisflokka verkanna og birt ásamt skýringarmyndum.

Alls hefur Trausti gefið út 14 bækur um hönnun og skipulag, þar af eru fjórar á ensku. Fyrsta bókin, Reykjavík – Vaxtarbroddur: Þróun höfuðborgar, kom út árið 1986 og og sú nýjasta árið 2015 og í enskri útgáfu 2017. Þær spanna ævistarf Traust og snerta afar fjölbreytt viðfangsefni en þar eru þó skipulag byggðar á Íslandi og framtíðar- og umhverfismál rauður þráður. 

Útgáfa bókanna á bæði raf- og hljóðbókarformi er sannkallað frumkvöðlastarf af hálfu Tausta en við vinnuna naut hann tækniaðstoðar og aðstöðu í Setbergi - húsi kennslunnar þar sem Kennslusvið Háskóla Íslands er til húsa. Bækurnar má allar nálgast á vefsíðu Trausta (undir Books) ásamt ritdómum, umsögnum og öðru ítarefni (allt að 40 síður um hverja bók). „Þetta hefur krafist nokkurra ára vinnu en varð mögulegt eftir að ég fór á eftirlaun árið 2016,“ segir Trausti en þetta frumkvæði hans sýnir að slíkt er vel framkvæmanlegt með góðum stuðningi Kennslusviðs.

Trausti hefur einnig gert yfirlit um verk sín með kjarnasetningum og myndum úr ritum sínum. Þar skiptir hann efninu eftir 12 efnisflokkum eins og sjá má hér að neðan. Þar er þess getið hvar í ritunum er fjallað um viðkomandi þátt og jafnan birtar krækjur á viðkomandi rit.

Trausti Valsson