Skip to main content
18. desember 2017

Fyrsta útskrift úr handleiðslunámi Félagsráðgjafardeildar í sautján ár

Fyrsta útskrift nema úr handleiðslunámi Félagsráðgjafardeildar við Háskóla Íslands í sautján ár var haldin fimmtudaginn 14. desember síðastliðinn.

Mikil eftirvænting var eftir útskriftinni þar sem ekki hefur verið boðið upp á handleiðslunámið síðan árið 2000 og orðin mikil þörf fyrir sérhæfða þekkingu og færni fagfólks í samfélaginu til að geta veitt handleiðslu á hinum ýmsu sviðum, s.s. meðferðar- og þjónustusviði, félags- heilbrigðismála, réttarfélagsráðgjafar og skólamála.

Námið ber heitið „Faghandsleiðsla – kenningagrunnur og tækni” og er þriggja missera nám til diplómagráðu í handleiðslufræðum í umsjón Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors emerita við Félagsráðgjafardeild.

Námsleiðin er sem fyrr segir á vegum Félagsráðgjafardeildar og skipulögð af Sigrúnu í náinni samvinnu við aðila á vettvangi, m.a. Handís - Handleiðarafélag Íslands. Nemendur eru fagfólk með 4-5 ára háskólamenntun til löggiltra starfsréttinda á sviði félags-, heilbrigðis- , menntunar- og hegðunarfræða. Hafa þau öll trausta reynslu af faglegu starfi og af eigin handleiðslu.

Mikil aðsókn var í námið en mun færri komust að en vildu. Enginn heltist  úr lestinni á námstímanum og að þessu sinni útskrifast 25 reyndir fagaðilar úr mörgum faghópum frá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands með prófgráðu í handleiðslufræðum.

Sigrún Lillie Magnúsdóttir, sem starfar sem forstöðumaður Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, er ein af útskriftarnemendum í handleiðslunáminu. Sigrún hafði beðið lengi eftir að komast í námið. „Ég hef haft mikinn áhuga og metnað til að styðja og efla heilbrigðisstarfsfólk sem í sínu daglega starfi leggur sig fram við að koma til móts við ólíkar þarfir sinna skjólstæðinga,“ segir hún.

Sigrún, sem hefur starfað í 30 ár sem hjúkrunarfræðingur, er gott dæmi um þann ávinning sem handleiðslunámið skilar út í samfélagið. „Handleiðslunámið hefur algjörlega staðist þær væntingar sem ég hafði. Námið hefur dýpkað þekkingu mína og sú reynsla sem ég hef öðlast í 30 ára starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur hefur fengið nýja þýðingu og vídd. Kennarar lögðu sig mikið fram við að koma námsefninu til skila og allt var svo áhugavert og merkilegt. Ég hlakka til að geta komið enn betur til móts við heilbrigðisstarfsfólk í mínu nýja lífi sem handleiðari.“

Samskipti innan nemendahópanna í náminu voru jákvæð og uppbyggileg, bæði félagslega og faglega. „Ávinningurinn sem ég hafði alls ekki gert ráð fyrir en er ómetanlegur eru tengslin sem mynduðust milli okkar handleiðslusystra í hópi númer tvö, sem ekki hefði orðið nema fyrir námið. Vegna þessa er ég margfalt ríkari sem persóna og fagmaður og fyrir það er ég þakklát,“ segir Sigrún Lillie Magnúsdóttir.

útskriftarhópurinn ásamt leiðbeinendum